Mesta hættan við atvinnusvæðið

Mesta hættan er á að snjóflóð falli á atvinnusvæði yst …
Mesta hættan er á að snjóflóð falli á atvinnusvæði yst í bænum. Almannavarnir fylgjast með en ekki hefur verið tekin ákvörðun um að rýma svæði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óvissustigi vegna snjóflóðahættu á Austfjörðum var lýst yfir í morgun og er mesta hættan talin vera á ofanflóði úr Strandatindi. 

Töluvert mikið hefur snjóað á Austfjörðum, sérstaklega í nágrenni við Seyðisfjörð, síðan í gær og er áframhaldandi snjókomu spáð fram eftir degi.

Þetta segir Magni Hreinn Jónsson, ofanflóðasérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Dregur úr úrkomu í kvöld

Svæðið sem talið er í mestri hættu er atvinnusvæði yst á Seyðisfirði.

Samkvæmt mælingum Veðurstofunnar hefur úrkoman á Seyðisfirði náð 70 mm síðan í gær. Búist er við flekamyndun í norðaustan og norðnorðvestan átt.

Í kvöld gera spár ráð fyrir að það dragi úr snjókomunni og reikna sérfræðingar með því að snjóflóðahættan minnki samhliða því.

Almannavarnir í viðbragðsstöðu

Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarna, segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um að rýma þau svæði á Seyðisfirði sem séu í hættu.

Almannavarnir séu í viðbragðsstöðu en ekki hafi verið gripið til aðgerða enn sem komið er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert