Sorglegt að þurfa að fara í þennan fasa

Ragnar Þór Ingólfsson.
Ragnar Þór Ingólfsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir stöðuna sem nú er uppi í kjaraviðræðum breiðfylkingarinnar við Samtök atvinnulífsins, SA, vera grafalvarlega.

Breiðfylkingin fundar í höfuðstöðvum VR kl. 13 í dag til að fara yfir stöðu mála eftir að upp úr slitnaði í viðræðum við SA fyrir helgi hjá ríkissáttasemjara.

Aðildarfélögin funduðu með sínu baklandi um helgina og telur Ragnar Þór að hópurinn ætti að mæta vel undirbúinn á fundinn varðandi næstu skref.

Veltur á Samtökum atvinnulífsins

„Auðvitað er þetta grafalvarleg staða þegar aðilar ná ekki saman og þetta er komið á þetta stig en ég skynja skýran vilja hjá hópnum að ná þessu saman, þeim markmiðum sem við lögðum upp með í upphafi en það veltur algjörlega á Samtökum atvinnulífsins hvort það verður hægt eða ekki,” segir Ragnar Þór, spurður út í stöðu mála.

Breiðfylkingin og SA á fundi hjá ríkissáttasemjara fyrr á árinu.
Breiðfylkingin og SA á fundi hjá ríkissáttasemjara fyrr á árinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þurfa að tikka í öll boxin“

Hann segir breiðfylkinguna ekki vera byrjaða að kortleggja neinar verkfallsaðgerðir. Slíkt hafi ekkert verið rætt.

„Það er mjög dapurlegt að þurfa alltaf að fara í þennan fasa. Það varla kemur langtímakjarasamningur á Íslandi öðruvísi heldur en að stéttarfélög þurfa að tikka í öll boxin og hóta aðgerðum til þess að samningsvilji mótaðilans sé með þeim hætti að það sé hægt að loka sanngjörnum og góðum kjarasamningi. Þetta er fyrst og fremst sorglegt að þetta þurfi alltaf að fara í þennan fasa,” bætir hann við og nefnir lífskjarasamninginn og kjarasamninginn 2015 sem dæmi um þetta.

„En erum að halda okkar striki í þessu og ætlum okkar að ná þessum markmiðum og vonandi tekst það án átaka.”

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA.
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA. mbl.is/Kristinn Magnússon

Spurður segir hann nýjar tillögur ekki vera á leiðinni frá breiðfylkingunni. Markmið baklands hennar séu skýr, þ.e. að róa að því öllum árum að ná yfirlýstum markmiðum. Það sé undir SA komið hvort það takist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert