„Miðað við stöðuna í dag lítur þetta mjög vel út“

Heitavatnstankur í Reykjanesbæ. Heitt vatn er aftur komið á á …
Heitavatnstankur í Reykjanesbæ. Heitt vatn er aftur komið á á Suðurnesjum og tjón hjá notendum virðist vera lítið sem ekkert enn sem komið er. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lítið sem ekkert virðist vera um tjón af völdum frostskemmda á heimilum og atvinnuhúsnæði á Suðurnesjum eftir heitavatnsleysið. Engar tilkynningar um skemmdir vegna frostskemmda hjá notendum hafa borist til HS Veitna, Náttúruhamfaratrygginga Íslands og tryggingafélaganna TM, Sjóvá, Varðar og VÍS. Þá hafa engar frostskemmdir komið upp hjá stofnunum Reykjanesbæjar.

mbl.is sendi fyrirspurn í gær á öll tryggingafélögin og fékk svar frá þeim öllum. Þar hafa engin mál tengd frostskemmdum á Suðurnesjum komið inn á borð. Hulda Ragnheiður Árnadóttir, forstjóri Náttúruhamfaratrygginga, staðfestir við mbl.is að engar slíkar tilkynningar hafi komið inn á borð stofnunarinnar. 

Þá staðfestir Guðlaugur H. Sigurjónsson, sviðstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs Reykjanesbæjar, að engar frostskemmdir hafi komið upp hjá stofnunum sveitarfélagsins. 

Páll Erland, forstjóri HS Veitna, segir að þrátt fyrir aðstoð í nokkrum fjölda húsa, þá hafi engar tilkynningar komið inn um frostskemmdir. Segir hann óhætt að kalla hvernig til hafi tekist kraftaverk, „sérstaklega eftir svona langvarandi heitavatnsleysi.“

Páll Erland for­stjóri HS Veitna.
Páll Erland for­stjóri HS Veitna. mbl.is/Óttar

50 beiðnir um aðstoð

Hann tekur fram að eflaust eigi eitthvað tjón eftir að koma í ljós á næstu dögum, en að mesta hættan á stærri skemmdum sé í upphafi þegar hitaveitan fari að streyma inn í hús. „Miðað við stöðuna í dag lítur þetta mjög vel út,“ segir Páll.

Pípararsveit almannavarna hefur á síðustu sólarhringum unnið á fullu með HS Veitum til að tryggja að vatn komist í hús og voru um 50 beiðnir sem bárust um aðstoð vegna þess í gær.

Páll þakkar því einnig hvernig til hefur tekist að íbúar á Suðurnesjum hafi farið að tilmælum almannavarna varðandi notkun á rafmagni á meðan heitavatnslaust hefur verið.

Þá var í gær greint frá því að um 1.800 tonn af heitu vatni hefðu verið flutt frá Hafnarfirði á tankbílum til að setja á hitaveitukerfi á Suðurnesjum til að reyna að koma í veg fyrir skemmdir.

Eftir að hraun fór yfir heitavatnslögnina frá Svartsengi til Njarðvíkur …
Eftir að hraun fór yfir heitavatnslögnina frá Svartsengi til Njarðvíkur var ráðist í að klára nýju lögnina. Hún gaf sig hins vegar og þá þurfti að fara í viðgerðir sem tókust og er heitt vatn aftur komið á. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skemmdir vegna frostskemmda sem hljótast af heitavatnsleysi flokkast sem afleiddar skemmdir vegna bilunar í veitukerfi. Slíkt tjón tryggir Náttúruhamfaratrygging Íslands ekki og þá tryggja hefðbundin tryggingafélög ekki tjón af völdum náttúruhamfara. Því var gríðarlega mikilvægt fyrir íbúa að vel tókst til við að koma heitu vatni aftur á áður en til frostskemmda kom.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert