Grindavík opnuð á ný í dag

Íbúum og fyrirtækjum í Grindavík er heimilt frá og með deginum í dag að dvelja og starfa í bænum allan sólarhringinn. Ríkislögreglustjóri gaf út tilkynningu þess efnis í gær þar sem fallið var frá fyrirmælum um brottflutning úr Grindavík. Ákvörðunin gildir til 29. febrúar. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum segir skýrt í tilmælum sínum að Grindavíkurbær sé ekki staður fyrir börn. Grindvíkingar fengu í gær tækifæri til að spyrja bæjarstjórnina spurninga á íbúafundi sem haldinn var í Laugardalshöll.

„Við höfum ekki séð framan í þau síðan 10. nóvember og þessi fundur með bæjarstjórninni var löngu orðinn tímabær. Það var rólegt á fundinum til að byrja með en undir lokin fór aðeins að hitna í kolunum,“ segir Páll Valur Björnsson, fyrrverandi þingmaður og Grindvíkingur til 40 ára. Margir hafi látið tilfinningar sínar í ljós og mörgum þótt bæjarstjórnin ekki hafa staðið sig nógu vel í að verja hagsmuni íbúa. Gagnrýndu íbúar á fundinum m.a. að forkaupsrétturinn, sem þeim er tryggður í frumvarpi fjármálaráðherra um kaup íbúðarhúsnæðis, væri einungis í gildi í tvö ár frá gildistöku laganna. Vilja íbúar rýmri tíma til að gera upp hug sinn hvað endurkomu í bæinn varðar og telja þeir nær að tímaramminn sem þeim er gefinn telji fimm ár frekar en tvö.

Um tuttugu umsagnir höfðu í gær borist efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis við frumvarpið um tímabundinn rekstrarstuðning vegna náttúruhamfaranna í Grindavík.

Atvinnuteymi Grindavíkurbæjar gerir athugasemd við að frumvarpið komi að takmörkuðu gagni fyrir mörg fyrirtæki nema úrræðið verði rýmkað. Þörf sé fyrir frekari aðgerðir svo fyrirtæki geti „lifað af“ og lagað sig að erfiðum og breyttum aðstæðum. Þá er einnig lagt til að fyrirtæki getið fengið rekstrarstuðning í lengri tíma en frumvarpið kveður á um, eða að lágmarki til 30. júní.

Frumvarpið er þó einnig sagt jákvætt skref í rétta átt.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert