Aðfinnsluvert aksturslag og æsingur í verslun

Lögreglan að störfum.
Lögreglan að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um aðfinnsluvert aksturslag ökumanns í Grafarvogi.

Lögreglumenn höfðu uppi á honum og kvaðst ökumaðurinn hafa átt í erfiðleikum sökum hálku.

Lögreglan varar einmitt við erfiðri færð á höfuðborgarsvæðinu í dagbók sinni og hvetur ökumenn til að sýna tillitssemi og varúð í morgunumferðinni.

Æstur í verslun 

Tilkynnt var um æstan einstakling í verslun í hverfi 109 í Breiðholti. Rætt var við hann og honum ekið þangað sem hann þurfti að komast.

Einnig var tilkynnt um ungmenni að valda eignaspjöllum í Grafarvogi og var málið leyst með aðkomu foreldra.

Í annarlegu ástandi í verslun

Einstaklingum í annarlegu ástandi var vísað út úr verslun í miðbæ Kópavogs að beiðni starfsmanna.

Umferðarslys varð í hverfi 108 í Reykjavík. Tvær bifreiðar skemmdust ásamt girðingu sem aðskilur akbrautir.

Tilkynning barst um ungmenni að stela úr verslun í sama hverfi. Málið var leyst með aðkomu foreldra.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Langt yfir hámarkshraða

Þá voru þrír ökumenn kærðir í Reykjavík fyrir að aka langt yfir hámarkshraða. Sá sem ók hraðast var á 138 km hraða í hverfi 105 þar sem leyfilegur hámarkshraði er 80 km/klst.

Ökumaður var jafnframt stöðvaður í hverfi 108. Reyndist hann vera undir áhrifum ávana- og fíkniefna og sömuleiðis sviptur ökurétti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert