Ekki lengur týndur og dæmdur fyrir stunguárás

Ívar var dæmdur til tveggja ára fangelsisvistar fyrir brot sín.
Ívar var dæmdur til tveggja ára fangelsisvistar fyrir brot sín. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt Ívar Aron Hill Ævarsson í tveggja ára fangelsi fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás og tilraun til ráns, fjársvik, nokkur umferðarlagabrot, nytjastuldi, þjófnað og fíkniefnalagabrot.

Þá var ævilöng svipting ökuréttar hans áréttuð og honum gert að greiða brotaþola líkamsárásarinnar 1.375.535 krónur í miskabætur auk vaxta og dráttarvaxta.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ákærði Ívar fyrst þann 16. ágúst 2022 fyrir nytjastuld og umferðarlagabrot með því að hafa þann 15. apríl 2022 tekið bifreið í heimildarleysi, ekið henni sviptur ökuréttindum auk þess að vera óhæfur til að stjórna henni vegna áhrifa ávana- og fíkniefna.

Frá því málið var höfðað og þar til það var dómtekið þann 11. janúar 2024 voru tvær aðrar ákærur sameinaðar málinu. Annars vegar ákæra sem lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu höfðaði á hendur Ívari þann 3. janúar árið 2023 og er í níu liðum og hins vegar mál sem héraðssaksóknari höfðaði með ákæru þann 22. júní 2023, en sú ákæra er í tveimur liðum.

Þess ber að geta að fresta þurfti málinu ítrekað þar sem Ívar mætti ekki fyrir dóm.

Stakk brotaþola þrisvar með hníf

Ákæra héraðssaksóknara í júní á síðasta ári varðaði sérstaklega hættulega líkamsárás og tilraun til ráns. Réðst Ívar á brotaþola, stakk hann þrisvar sinnum með hníf og reyndi að taka af honum reiðhjól. 

Átti árásin sér stað á gangstétt við undirgöng við Sprengisand í Reykjavík og hlaut brotaþoli eitt stungusár á vinstri mjaðmakamb og tvö stungusár á vinstra læri með miklum útvortis og innvortis blæðingum, þar á meðal sárablæðingu, auk þess sem hluti lærvöðva hans fór í sundur. 

Þá var hann jafnframt ákærður fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa haft í vörslum sínum 9,8 grömm af marijúana sem lögreglan fann við öryggisleit á Ívari á lögreglustöðinni að Hverfisgötu.  

Ítrekuð brot Ívars um mitt ár 2022

Í ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, sem sett er fram í níu liðum, er Ívar ákærður fyrir þjófnað með því að hafa laugardaginn 21. maí 2022 stolið fartölvu, spjaldtölvu og 300.000 krónum í peningum í Hafnarfirði.

Fyrir þjófnað fimmtudaginn 2. júní 2022 með því að hafa brotist inn í húsnæði í Kópavogi þar sem hann stal verkfærum, auk þess sem hann braust inn í bíl fyrir utan húsnæðið og stað Ryobi juðara og Makita slípirokk.

Fyrir umferðarlagabrot mánudaginn 6. júní 2022 með því að hafa ekið bifreið sviptur ökuréttindum og óhæfur til að stjórna henni vegna áhrifa ávana- og fíkniefna.

Fyrir nytjastuld þriðjudaginn 7. júní 2022 með því að hafa tekið bifreið í heimildarleysi við Suðursali í Kópavogi, og ekið henni á brott. Hann fór þó ekki langt því lögregla hafði afskipti af honum síðar sama dag þar sem hann var sofandi í bifreiðinni í Kópavogi.

Fyrir þjófnað og fíkniefnalagabrot með því að hafa, þriðjudaginn 7. júní 2022, brotist inn í húsnæði í Kópavogi, með því að brjóta upp glugga, og stolið þaðan armbandsúri, Google assistant hátalara, Macbook fartölvu, Steelseries heyrnartólum, grárri 66° norður úlpu og 1.200.000 krónunum.

Þegar lögregla hafði afskipti af honum þennan sama dag var hann jafnframt með í fórum sínum 6,20 grömm af marijúana.

Nytjastuldur og umferðarlagabrot

Þá var Ívar ákærður fyrir nytjastuld, umferðar- og fíkniefnalagabrot með því að hafa heimildarlaust tekið bifreið þaðan sem hún stóð í Kópavogi sunnudaginn 28. ágúst 2022, ekið henni sviptur ökuréttindum og óhæfur til að stjórna henni vegna ávana- og fíkniefna.

Fyrir nytjastuld með því að hafa þriðjudaginn 30. ágúst 2022 tekið aðra bifreið í heimildarleysi þaðan sem hún stóð á bílastæði í Reykjavík. Bifreiðinni ók hann á ÓB bensín að Snorrabraut og að Hagkaup í Skeifunni.

Auk þessa var Ívar ákærður fyrir að fjársvik sem áttu sér stað þennan sama dag með því að hafa í blekkingarskyni og án heimildar notað bensínlykil í eigu annars einstaklings til að greiða fyrir eldsneyti á ÓB að Snorrabraut. Þá notaði hann jafnframt greiðslukort sama aðila til að greiða fyrir hinn ýmsa varning.

Í síðasta lið ákærunnar er tekinn fyrir þjófnaður sem átti sér stað laugardaginn 3. september 2022 í Reykjavík en þar er Ívar ákærður fyrir að hafa brotist inn í hús með því að spenna upp glugga og stolið þaðan Hiss-bakpoka.

Játaði sök fyrir dómi 

Fyrir dómi játaði Ívar skýlaust alla þá háttsemi sem honum var gefin að sök í ákærunum og réttilega heimfærð til refsiákvæði. Í niðurstöðu dómsins segir að líta beri til þess að hann hafi játað, auk þess að líta til þess að Ívar hafi í tvígang farið í meðferð eftir ofbeldisbrot og þannig reynt að bæta ráð sitt. 

Einnig var þó litið til þess að Ívar á að baki afbrotaferil sem nær aftur til ársins 2008. Honum hefur ítrekað verið gerð refsing vegna auðgunarbrota, brota gegn lögum um ávana- og fíkniefni og umferðarlagabrota en hann var sviptur ökuréttindum sínum ævilangt þann 3. desember 2019. 

Ívar fékk fjögurra mánaða fangelsisdóm þegar hann var sviptur ökuréttindum í sjötta skiptið. Við dóm þessa máls var því litið til þess að Ívar var að aka án ökuréttinda og undir áhrifum ávana- og fíkniefna í sjöunda sinn. 

Auk þess sem litið var til þess að fresta þurfti málinu ítrekað þar sem Ívar mætti ekki fyrir dóm. Til að mynda vegna þess að hann var týndur erlendis, en leita þurfti atbeina lögreglu til að fá Ívar fyrir dóm þann 11. janúar. 

Árétta sviptingu ökuréttinda 

Að endingu var Ívar dæmdur í tveggja ára fangelsi, þá var ævilöng svipting ökuréttinda hans áréttuð og 16,71 grömm af marijúana sem fundust í fórum hans gerð upptæk. 

Auk þess var Ívari gert að greiða brotaþola 1.375.535 krónur í miskabætur auk vaxta og dráttarvaxta, sem og að greiða 451.360 krónur í málskostnað, 354.640 krónur í lögmannskostnað og 667.960 krónur í annan kostnað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert