Tekur tvo daga að setja vatn á Grindavík

Vatni verður hleypt á Grindavík í fyrramálið.
Vatni verður hleypt á Grindavík í fyrramálið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Byrjað verður að hleypa köldu vatni á Grindavík í áföngum eftir klukkan 10 í fyrramálið. Þorsteinn Einarsson hjá Lagnaþjónustu Þorsteins segir að vatni verði hleypt á bæinn í áföngum og mun það taka tvo daga.

Byrjað verður við höfnina þar sem fyrirtækjastarfsemi er mest og svo verður hvert hverfi tekið fyrir sig á þriggja tíma fresti.

Hann segir ástæðu þessa verklags vera þá að með þessum hætti geti menn áttað sig á því hvort eitthvað sé skemmt í hverju hverfi fyrir sig.

„Með þessu getum við líka áttað okkur á því hvort einhverjar lagnir séu skemmdar í götunum, hvort þrýsting vanti í þeim og annað slíkt. Við höfum ekki stórar áhyggjur af því eins og er,“ segir Þorsteinn. 

Hann á ekki von á því að tjón verði á húsum þegar vatni verður hleypt á en ekki sé útilokað að frostsprungin inntök finnist.

Teymi pípara hefur verið að störfum og segir Þorsteinn öll hús bæjarins vera með hita þótt sumum þeirra sé haldið heitum með hitara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert