Ekki að sækja fólk til Afganistan, Sýrlands eða Venesúela

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra.
Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra sagði þá vinnu sem utanríkisþjónustan stæði í í Egyptalandi við að koma fólki frá Gasaströndinni í Palestínu á grundvelli dvalarleyfis vegna fjölskyldusameiningar vera „á allan hátt algjörlega einstök aðgerð“ og að Ísland hefði lent í viðbótarathugun vegna sinnar stöðu.

Þá sagði hann að fólk sem hefði fengið dvalarleyfi á þessum forsendum ekki eina slíka hópinn, heldur væri hópur fólks í Afganistan, í Venesúela og í Sýrlandi í sambærilegri stöðu.

„Í engu tilviki höfum við verið að undirbúa það að fara og sækja fólk eða hjálpa því sérstaklega að komast út úr Afganistan, svo dæmi sé tekið,“ sagði Bjarni í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi. Þar spurði Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, Bjarna um stöðu vinnu starfsmanna ráðuneytisins sem nú eru staddir í Egyptalandi.

„Ég þarf ekki að taka það fram, forseti, að hér er um líf eða dauða að tefla. Við erum í raun í kapphlaupi við tímann. Það eru 30.000 manns fallin, við þekkjum öll tölurnar, og það verður að nást árangur,“ sagði Þórunn í ræðu sinni.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, lagði spurningarnar fyrir Bjarna.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, lagði spurningarnar fyrir Bjarna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Viðbótarathugun vegna sérstöðu Íslands

Bjarni sagði að í þessari vinnu hefði komið í ljós að aðrar þjóðir hefðu aðallega verið að aðstoða eigin ríkisborgara og tryggja fjölskyldusameiningu við þá. Í einstaka tilvikum hefði dvalarleyfishöfum verið hjálpað út af svæðinu.

Sagði Bjarni að sérstaða Íslands í þessum málefnum hefði kallað á viðbótarathugun yfirvalda úti. „Þess vegna gerist það þegar íslensk stjórnvöld leggja fyrir listann um fjölskyldusameiningar til Íslands að það vekur athygli stjórnvalda þarna úti að þar er ekki um neina ríkisborgara á Íslandi að ræða eða fjölskyldusameiningar við ríkisborgara. Þetta hefur orðið til þess að við höfum fengið þau skilaboð að þetta geti kallað á viðbótarathugun.“

Tók hann þó fram að unnið væri áfram að málinu og að koma fólkinu frá Gasa. „En að sjálfsögðu er róið að því öllum árum að þessi aðgerð skili árangri. Við vonumst til þess að hún geti gert það.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert