Óvissustigi var lýst yfir vegna vélar Icelandair

Flugvél Icelandair á Keflavíkurflugvelli.
Flugvél Icelandair á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óvissustigi var lýst yfir á Keflavíkurflugvelli með tilheyrandi viðbúnaði um ellefuleytið í morgun vegna flugvélar frá Icelandair sem átti að lenda skömmu síðar. 

Að sögn Guðjóns Helgasonar, upplýsingafulltrúa Isavia, bárust skilaboð frá Neyðarlínunni um óvissustig klukkan 10.58 í morgun en það var síðan afturkallað 20 mínútum síðar.

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir flugvélina hafa lagt af stað frá Keflavíkurflugvelli til Boston í Bandaríkjunum klukkan 10.20 í morgun. Eftir um hálftíma flug sneri hún við vegna smávægilegrar bilunar sem tengdist vökvakerfi og lenti á flugvellinum klukkan 11.08. 

„Nú er unnið að því að koma farþegum með öðru flugi á áfangastað,” segir Guðni og bætir við að allt hafi verið unnið samkvæmt verklagi þar sem öryggið sé í fyrirrúmi.

Spurður segir hann enga hættu hafa verið á ferð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert