„Þá mun það kalla á fórnir“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra segir að til að ná árangri við að ná verðbólgu niður þurfi að færa fórnir. Hún segist vera þeirrar skoðunar að langmestu áhersluna eigi að leggja á uppstokkun ríkisreksturs og minnka útgjöld. Þá vill Þórdís fara í heildarendurskoðun á hvernig fjármögnun náttúruhamfaratrygginga sé hér á landi.

Þetta kom fram í máli Þórdísar í óundirbúnum fyrirspurnartíma á þinginu í dag. Var hún til svara við fyrirspurn Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur pírata sem spurði um fjármögnun á kaupum ríkisins á íbúðarhúsnæði í Grindavík. Vísaði Þórhildur til frumvarpsins og að þar kæmi fram að um verulegar tilfærslur verðmæta væri að ræða úr opinberum sjóðum til eigenda húsnæðisins.

„Í þessu felst að aðhaldsstig opinberra fjármála verður slakara en ella. Í stað þess að hafa áhrif til lækkunar verðbólgu og vaxta, líkt og gert var ráð fyrir í samþykktum fjárlögum 2024, verða áhrif ríkisfjármálanna á þessar stærðir allt að því hlutlaus á árinu 2024 nema ráðstöfunin verði fjármögnuð með hækkun skatta eða lækkun útgjalda,“ las Þórhildur upp úr greinargerð með frumvarpinu.

Spurði hún Þórdísi nánar út í fjármögnun aðgerðanna, stefnt væri að því að það væri gert með lántöku, og af hverju ekki hefði verið horft til sértækrar skattheimtu eins og hækkunar fjármagnstekjuskatts, bankaskatts eða hvalrekaskatts.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Árni Sæberg

Áhersla á uppstokkun og minni útgjöld

Sagði Þórdís að horfa þyrfti í þessu sambandi til aðkomu ríkisins að langtímakjarasamningum og fleiru. Allir væru sammála um að ná þyrfti árangri til að ríkisfjármálin styddu við verðbólgumarkmið um að ná verðbólgu niður. „Þá mun það kalla á fórnir,“ sagði Þórdís, en bætti við að hún væri meðvituð um að mismunandi skoðanir væru á því hvaða fórnir ætti að færa, hvort sem það væri í formi skattheimtu, minni útgjalda eða með að losa um aðrar eignir.

Sagðist Þórdís sjálf vilja leggja langmesta áherslu á það að stokka upp ríkisreksturinn og minnka útgjöld.

Gæti útgreiðsla komið niður á rekstrarhæfi sjóðsins?

Spurði Þórhildur nánar út í ákvörðunina að velja lántöku sem og að taka fjármuni innan úr Náttúruhamfaratryggingasjóði. Sagði hún að gæta þyrfti þess að það kæmi ekki niður á rekstrarhæfi og gjaldþoli stofnunarinnar. Spurði hún hvernig hægt væri að taka allavega 10 milljarða út úr sjóðnum án þess að það kæmi niður á gjaldþoli hans.

„Erum við ekki að stefna framtíðarviðnámsþoli okkar gagnvart náttúruhamförum í tvísýnu með því að koma svona fram við þennan sjóð sem er ekki ætlað að bæta annað en það sem verður fyrir tjóni út af náttúruhamförum?“ spurði Þórhildur að lokum.

Þórdís sagði að kaupin á húsnæði í Grindavík væru skammtímaáfall og því væri í hennar huga rétt að dreifa kostnaðinum yfir tíma og átti þar við lántöku vegna kostnaðarins sem fellur til.

Varðandi Náttúruhamfaratryggingar sagði Þórdís að það að nýta sjóðinn að hluta til að fjármagna aðgerðina þá liggi fyrir að það hafi nú þegar orðið tjón sem ekki hafi verið búið að meta og mögulega verði frekar tjón sem sjóðurinn muni þurfa að standa undir. Vísaði hún einnig til þess að horfa þyrfti á aðkomu endurtryggjenda sem muni bæta tjónið að hluta til sjóðsins.  

Gat sem kallar á heildarendurskoðun

Þórdís opnaði svo á þá hugmynd að fara í heildarendurskoðun á fjármögnun Náttúruhamfaratrygginga og sagði gat vera á hvað sé bætt sem nú komi í ljós.

„Síðan tel ég að þetta áfall og það verkefni sem við stöndum frammi fyrir kalli á heildarendurskoðun á því hvernig við fjármögnum náttúruhamfarir vegna þess að við erum með ofanflóðasjóð og Náttúruhamfaratryggingu Íslands og það er þarna gat vegna þess tjóns sem við erum að verða fyrir núna og við þurfum einfaldlega að endurskoða það heilt yfir,“ sagði Þórdís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert