Bankasala sýni að kosningar séu í nánd

Sigmundur Davíð og Þorgerður Katrín telja fyrirhugaða bankasölu til marks …
Sigmundur Davíð og Þorgerður Katrín telja fyrirhugaða bankasölu til marks um að kosningar séu í nánd. Samsett mynd

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, telja tillögur fjármálaráðherra um sölu á síðasta eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka bera vott um að kosningar séu í nánd.

Ekki endilega stuðningur í ríkisstjórn

„Nú eru stjórnarflokkarnir komnir í sína kosningabaráttu og ráðherrarnir sjálfir vilja leggja áherslu á og merkja sér ákveðið svæði, án þess endilega að hafa stuðning til þess í ríkisstjórninni,“ segir Þorgerður Katrín.

Æskilegra að bíða fram yfir kosningar

„Það er ágætt að ríkið losi um þennan eignarhlut fyrr eða síðar, en hvers vegna þetta er svona mikið kappsmál hjá þeim eftir vandræðaganginn sem á undan er genginn. Ég hefði talið æskilegra að ef menn ætluðu í sölu að láta einar kosningar líða inn á milli. En kannski vilja menn gera enn eina tilraun til að geta barið sér á brjóst og sagt: „Sko þetta gekk upp, tókst í þriðju tilraun“,“ segir Sigmundur Davíð.

Best að færa almenningi beint sinn hlut í bankanum

Sigmundur Davíð rifjar upp tillögur Miðflokksins fyrir kosningarnar 2017 og 2021 um að best væri að færa almenningi beint hlut sinn í bankanum til þess að ráðstafa að eigin vild.

„Þessi ríkisstjórn hefur sýnt að hún fer ekkert sérlega vel með almannafé. Ég óttast það að jafnvel þó þau selji þennan hlut nú, og gangi jafnvel slysalaust fyrir sig, þá hverfi andvirðið í hítina hjá þessari ríkisstjórn og verði að engu. Þá er bara betra að almenningur geti sjálfur ráðstafað sínum eignum beint.“

Samráðsgátt að verða póitískt áróðurstæki

Þorgerður Katrín merkir einnig samstöðuleysi ríkisstjórnar og kosningaskjálfta, í tengslum við fyrirhugaða bankasölu:

„Þessi fjöldi mála sem lagður er fram í samráðsgátt sýnir að ráðherrar eru að leggja þar inn mál sem ekki endilega er stuðningur við í ríkisstjórn. Er ríkisstjórnin búin að samþykkja þetta? Samráðsgáttin er þannig að verða pólitískt áróðurstæki hvers ráðherra fyrir sig.“

mbl.is reyndi einnig að ná tali af Kristrúnu Frostadóttur, formanni Samfylkingarinnar, við vinnslu fréttarinnar en hún gaf ekki kost á viðtali að svo stöddu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert