Leggur til sölu Íslandsbanka með almennu útboði

Stefnt er að sölu Íslandsbanka að heild eða hluta.
Stefnt er að sölu Íslandsbanka að heild eða hluta. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur efnt til samráðs í samráðsgátt stjórnvalda um drög að frumvarpi um ráðstöfun eftirstandandi eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka.

Samkvæmt drögunum er ráðherra heimilað, að fenginni heimild Alþingis í fjárlögum, að ráðstafa þeim eignarhlut sem ríkissjóður á í Íslandsbanka. 

Heimild í fjárlögum 2024 liggur þegar fyrir, en í eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki kemur fram að ætlunin sé að selja eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka þegar hagfelld og æskileg skilyrði eru fyrir hendi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórnarráðinu

Hafa þegar selt 57,5% í bankanum

Fram kemur í frumvarpsdrögunum að samhliða þessari heimild ráðherra verði heimild Bankasýslunnar til sölu á eignarhluta í fjármálafyrirtækjum felld úr gildi. Bankasýslan hafði það meðal annars að hlutverki að annast söluna á 35% hlut í bankanum í frumútboði í júní 2021 og 22,5% hlut sem seldur var með hröðuðu tilboðsfyrirkomulagi í mars 2022.

Varð talsverð óánægja með síðara fyrirkomulagið og aðkomu ráðherra og í framhaldinu tók umboðsmaður Alþingis ferlið til skoðunar. Komst hann að þeirri niðurstöðu að Bjarna Benediktssyni, þáverandi fjármálaráðherra, hefði brostið hæfi við ákvörðun sína þegar hann samþykkti 22,5% söluna. Leiddi álitið til þess að Bjarni sagði af sér sem fjármálaráðherra og tók svo við sem utanríkisráðherra.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bankasýslan ekki lengur kostur til að sjá um söluna

Í kjölfar álit umboðsmanns gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu um að ekki yrði ráðist í frekari sölu á hlutum ríkisins í bankanum að sinni og að ráðast ætti í að leggja Bankasýsluna niður.

Í frumvarpinu er vísað til þess að þegar búið er að slá út af borðinu sölu af hálfu Bankasýslunnar sé sá kostur helst í stöðunni að leggja til heimild til sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka undir stjórn fjármála- og efnahagsráðherra á grundvelli sérstakra laga.

„Með slíkri lagasetningu er unnt að kveða á um af hálfu Alþingis hvaða söluaðferðir verði heimilaðar. Við val á aðferðum er unnt að taka tillit til þess að bróðurpartur af eignarhaldi ríkisins hefur þegar verið losaður. Sú söluaðferð sem hér er lögð til er full markaðssett útboð, þ.e. opið útboð til allra fjárfesta,“ segir í frumvarpsdrögunum.

Salan til þess fallin að draga úr áhættu ríkissjóðs 

Þá segir að með sölunni sé unnt að lækka skuldir og vaxtabyrði ríkissjóðs sem annars þyrfti að fjármagna rekstur sinn með öðrum og kostnaðarsömum hætti, en ríkissjóður er sem stendur með um 9% af vergri landframleiðslu bundna í eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum. 

„Sala á eftirstandandi eignarhlut ríkissjóðs í Íslandsbanka er til þess fallin að draga úr áhættu sem fylgir slíkum eignarhlut. Það er talið skynsamlegt bæði þar sem ríkissjóður er þegar með talsverða áhættu af slíku eignarhaldi í gegnum eign sína í Landsbankanum en einnig er talið óheppilegt að ríkissjóður sé, í gegnum eignarhald í fjármálafyrirtækjum, stór aðili á samkeppnismarkaði,“ segir í tilkynningunni. 

Salan þykir „aðkallandi“

Í greinargerð frumvarpsins er sala á eignarhlutnum talin aðkallandi. „Sala eignarhlutarins þykir nokkuð aðkallandi til að draga úr fjárhagslegri áhættu ríkissjóðs og stuðla að meginmarkmiðum stefnunnar í opinberum fjármálum um lækkun skuldahlutfalls ríkissjóðs.“

Ef frumvarpsdrögin verða lögð fram á Alþingi og samþykkt munu gildandi lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum falla á brott. Hægt er að skoða drög að frumvarpinu í samráðsgátt

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK