Þrjár sviðsmyndir nú taldar líklegastar

Horft yfir Grindavík í gær. Eldgos innan varnargarða við bæinn …
Horft yfir Grindavík í gær. Eldgos innan varnargarða við bæinn þykir einnig líklegt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ef til annars eldgoss kemur, í grennd við Svartsengi, er líklegast að kvikan leiti frá Svartsengi yfir í Sundhnúkagígaröðina. Gos komi þá upp á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells.

Þetta er mat vísindamanna, að því er fram kemur í tilkynningu frá Veðurstofunni.

Tekið er fram að merki um að kvika sé að brjóta sér leið upp á yfirborðið kæmu fram í skyndilegri, staðbundinni og ákafri smáskjálftavirkni.

Kort/mbl.is

Gæti hafist með mjög litlum fyrirvara

Ef horft sé til fyrri eldgosa á svæðinu gæti nýtt eldgos hafist með mjög litlum fyrirvara, innan við 30 mínútur, allt eftir því hvar á gígaröðinni kvika kemur upp.

Tilteknar eru þrjár líklegar sviðsmyndir:

Eldgos milli Sýlingarfells og Stóra-Skógfells, eins og 18. desember og 8. febrúar. 

 • Aðdragandi: Skyndileg, staðbundin og áköf smáskjálftavirkni. Aflögun yfir kvikuganginum. 
 • Mjög stuttur fyrirvari, innan við 30 mínútur, þar sem kvika á auðvelda leið til yfirborðs vegna fyrri umbrota. 
 • Hraun nær að Grindavíkurvegi á innan við fjórum klukkustundum.

Eldgos við Hagafell, eins og 14. janúar.

 • Aðdragandi: Smáskjálftavirkni á Sundhnúkagígaröðinni sem byrjar við Sýlingarfell og færist suður. Aflögun yfir kvikuganginum. 
 • Líklegur fyrirvari um 1-3 klst. frá því að fyrstu skjálftar mælast og eldgos hefst. 
 • Hraun nær að varnargörðum við Grindavík á einni klukkustund.
 • Kvikuinnskot sem nær suður fyrir Hagafell mun líklega valda verulegum sprunguhreyfingum í Grindavík. 

Eldgos innan varnargarða við Grindavík 

 • Aðdragandi: Smáskjálftavirkni á Sundhnúkagígaröðinni sem byrjar við Sýlingarfell og færist suður. Aflögun yfir kvikuganginum. 
 • Líklegur fyrirvari um 1-5  klst. frá því að fyrstu skjálftar mælast og eldgos hefst. 
 • Sá möguleiki er fyrir hendi að gossprunga opnist innan varnargarða án þess að gos sé hafið við Hagafell, eins og gerðist 14. janúar þegar ný gossprunga opnaðist rétt við bæjarmörkin um fjórum klukkustundum eftir að gos hófst við Hagafell. 
 • Kvikuinnskot sem nær suður fyrir Hagafell mun líklega valda verulegum sprunguhreyfingum í Grindavík.

Tekið er fram að þrátt fyrir að skýr merki um landris sjáist í Svartsengi þýði það ekki að þar sé líklegasti staðurinn fyrir upptök eldgoss. Jarðskorpan þar sé til að mynda mun sterkari en sú sem er við Sundhnúkagígaröðina.

„Ef sú sviðsmynd verður að veruleika að kvika leiti beint upp í Svartsengi, er áætlað að það taki kvikuna í minnsta lagi 4-7 klukkustundir að ná yfirborðinu frá því fyrstu merki um slíkt fari að mælast,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert