VR slítur sig frá breiðfylkingunni

Vilhjálmur Birgisson og Ragnar Þór Ingólfsson.
Vilhjálmur Birgisson og Ragnar Þór Ingólfsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

VR hefur ákveðið að slíta sig frá breiðfylkingu stéttarfélaga í samningaviðræðunum við Samtök atvinnulífsins en Starfsgreinasambandið, Efling og Samiðn halda áfram kjaraviðræðunum við SA.

Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins staðfestir þetta í samtali við mbl.is og segir hann Starfsgreinasambandið, Eflingu og Samiðn munu funda stíft alla helgina með Samtökum atvinnulífsins. Mbl.is greindi frá því í gær að breiðfylkingin hefði náð samkomulagi við Samtök atvinnulífsins um forsenduákvæði samningsins.

„Það er formanns eða stjórnar VR að svara fyrir það af hverju það slítur sig frá breiðfylkingunni. Við í Starfsgreinasambandinu, Eflingu og Samiðn sitjum enn við samningaborðið en VR kaus að fara aðra leið og það er ekkert við því að segja,“ segir Vilhjálmur við mbl.is.

Hann segir að búið sé að skipuleggja stíf fundarhöld alla helgina og stefnan sé áfram að ná niður verðbólgu og vöxtum með aðkomu stjórnvalda og sveitarfélaga með hagsmuni samfélagsins í heild sinni að leiðarljósi.

Spurður hvort það sé högg fyrir breiðfylkinguna að VR hafi kosið að slíta frá sig samstarfinu segir Vilhjálmur:

„Samstaðan er það sem skiptir máli í öllu í því sem fólk tekur sér fyrir hendur, hvort sem það er í félagasamtökum, íþróttum eða hverju sem er. Þetta var niðurstaða VR. Samningsumboðið liggur hjá hverju landssambandi og félagi fyrir sig og þannig er lýðræðið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert