Boða til atkvæðagreiðslu um verkfallsaðgerðir

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Hákon

Samninganefnd Eflingar ákvað í kvöld að atkvæðagreiðsla um boðun vinnustöðvunar hjá ræstingafólki fari fram á meðal félagsmanna. 

Þetta staðfestir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í samtali við mbl.is að fundi samninganefndar loknum í kvöld, en félagið fundaði um málið í kvöld eftir að hafa ekki mætt á fund ríkissáttarsemjara í dag.

Samningaviðræðum var slitið með formlegum hætti 9. febrúar, en viðræður hafa að undanförnu farið fram undir stjórn ríkissáttarsemjara. 

Hver og eins félags að ákveða fyrir sig

Spurð hvort forystu hinna stéttarfélaganna í breiðfylkingunni sé kunnugt um ákvörðunina svarar Sólveig: 

„Þeim var fullkunnugt um að þetta yrði meðal þess sem yrði rætt hér á fundi samninganefndar. Eins og öll vita þá er samninganefnd Eflingar alltaf viðbúin til að takast á við mál sem að upp koma.“

Aðspurð kveðst hún þó ekki getað svarað til um hvort hin stéttarfélögin muni fylgja í fótspor Eflingar og boða til atkvæðagreiðslu um verkfallsaðgerðir. 

„Samvinnan er mikil okkar á milli en auðvitað er það bara hvers og eins félags eða landssambands að taka ákvörðun um það hvort þau vilji fara þessa leið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert