Hátt í 20 stiga frost

Hitaspá klukkan 6 að morgni laugardaginn 2. mars.
Hitaspá klukkan 6 að morgni laugardaginn 2. mars. Kort/Veðurstofa Íslands

Ískalt var á nokkr­um stöðum á land­inu í nótt en kaldast var á Ólafsfirði þar sem frostið mældist 18,1 gráða og á Hveravöllum þar sem mælar sýndu -18,0 gráður.

Þá mældust -17,2 gráður við Upptyppinga og -14,9 gráður á Mývatni.

Hlýnar eftir helgi

„Það er býsna kalt loft yfir landinu, sérstaklega á norðanverðu landinu, og það er langt í lægðir og ekki neitt sem siglir beint til okkar alveg á næstunni þannig að við erum svona inni í kaldari loftmassa núna fram yfir helgi en þó á sunnanverðu landinu sækir samt ofurlítið mildara loft,“ segir Óli Þór Árnason, vakthafandi veðurfræðingur hjá Veðurstofunni, í samtali við mbl.is.

Segir hann kuldann því einkum bundinn við svæðið á Norður- og Norðausturlandi, þá sérstaklega inn til landsins.

„Komandi nótt verður líklega á svipuðum nótum en síðan verður aðeins mildara. Aðfaranótt laugardags verður þó jafnvel enn kaldara en svo eftir helgi fer að hlýna svolítið aftur hjá okkur.“

Dægursveifla í hitatölunum

Inntur eftir því hvort langt sé í vorið segir Óli Þór nýjustu langtímaspár benda til þess að veðrið verði alveg ágætt á næstunni.

„Hitinn fyrir norðan og austan verður þó í kaldari kantinum en sólin er komin það hátt á loft að það er komin svolítil dægursveifla í hitann,“ segir hann.

„Þannig að yfir daginn, þegar sólar nýtur, verða ágætis hitatölur og mér sýnist nú að strax í næstu viku, og síðan í framhaldinu, að hitinn hér á sunnanverðu landinu verði oftar fyrir ofan frostmark yfir daginn en fyrir neðan en það verður kannski ekki alveg svo milt fyrir norðan.“

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert