„Opnum ekkert á næstunni“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Þröstur Ingvarsson, sölustjóri hjá Slippfélaginu, segir óvíst hvenær hægt verði að opna verslun Slippfélagsins við Fellsmúla á nýjan leik en töluvert tjón varð í húsakynnum verslunarinnar eftir stórbruna um miðjan þennan mánuð þegar eldur braust út í bifreiðaþjónustu N1.

„Staðan hjá okkur er í rauninni sú að við erum að taka út ákveðnar vörur sem mögulega er hægt að bjarga en það er alveg ljóst að við erum ekkert að fara opna verslunina á næstunni,“ segir Þröstur við mbl.is.

Hann segir að það sé ekkert þak yfir versluninni en á hæðinni fyrir ofan Slippfélagið sé starfsemi bifreiðaþjónustu og dekkjaverkstæði N1 þar sem bruninn átti upptök sín.

Þröst­ur Ingvars­son, sölu­stjóri hjá Slipp­fé­lag­inu, og Sig­ur­björg Stef­áns­dótt­ir versl­un­ar­stjóri.
Þröst­ur Ingvars­son, sölu­stjóri hjá Slipp­fé­lag­inu, og Sig­ur­björg Stef­áns­dótt­ir versl­un­ar­stjóri. Mynd/Guðmundur Hilmarsson

Töluvert mikið tjón

„Við urðum fyrir töluvert miklu tjóni á vörum án þess að ég geti sagt nákvæmlega til um það. Það er aðallega vegna lyktar og meðan það tekst ekki að loka hæðinni fyrir ofan og það lekur inn til okkar þá fer lyktin ekkert. Ég næ ekkert að þrífa almennilega á meðan ástandið er með þessum hætti. Það er ekki vatnshelt á milli hæða,“ segir Þröstur og bætir því að það liggi hjá Festi, sem rekur N1, hvert framhaldið verði.

Þröstur segir að tekist hafi að bjarga einverjum vörum úr versluninni og þá sérstaklega af listamannavörum sem eru í lokuðum túpum en að sama skapi sé verið að meta stöðuna á vörunum.

Þröstur vill koma því á framfæri að viðskiptavinir Slippfélagsins geti farið í farið í verslanir Slippfélagsins í Skútuvogi og við Dalshraun í Hafnarfirði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert