„Það verður tekið verulega á þessu“

Salómon Viðar Reynisson, eigandi bifreiðaverkstæðisins Vélrás, staðfestir við mbl.is að rúta, sem ekið var á móti umferð á Reykjanesbraut í gær, hafi verið í umsjón fyrirtækisins í viðgerð.

„Það verður tekið verulega á þessu, en við eigum eftir að fá endanlega málavexti á hreint,“ segir Salómon.

Hann segir málið litið alvarlegum augum innan fyrirtækisins og segir hann að verið sé að skoða hvað hafi komið fyrir.

Slæmt fyrir rekstur Arctic Oro

Miao Eve, verkefnastjóri hjá fyrirtækinu Arctic Oro sem á rútunu, segir í samtali við mbl.is að Arctic Oro hafa hlotið orðsporshnekki því fólk hafi talið að þeirra ökumaður hafi ekið rútunni.

„Af því að á myndbandinu sést í bílnúmerið þá sé ég í kommentakerfinu á Facebook að fólk er að birta nafnið á fyrirtækinu okkar og það er mjög slæmt fyrir fyrirtækið,“ segir Eve.

Fólk fljótt að dæma í kommentakerfum

Hún segir að rútan hafi farið í viðgerð hjá Vélrás 21. febrúar og sé búin að vera þar síðan þá.

„En fólk dæmir í kommentakerfinu. Það heldur að þetta sé okkar hegðun sem er mjög slæmt fyrir okkar rekstur,“ segir hún og bætir við:

„Í ummælunum segir að fyrirtækið sé að brjóta reglur, að við kunnum ekki að keyra og spyr hvernig við fáum að aka ferðamönnum um landið. Þau skrifuðu slæm ummæli og það hefur verið slæmt fyrir fyrirtækið.“

Atvikið vakti mikla furðu og reiði meðal almennings. Sæv­ar Guðmunds­son, aðal­varðstjóri hjá lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu, sagði í sam­tali við mbl.is fyrr í dag að málið væri alvarlegt og með ólíkindum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka