Dómur þyngdur yfir fyrrverandi eiganda Kornsins

Rögnvaldur var eigandi Kornsins til ársins 2017. Hann hafði tekið …
Rögnvaldur var eigandi Kornsins til ársins 2017. Hann hafði tekið við rekstrinum af foreldrum sínum sem stofnuðu bakaríið árið 1981. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsréttur þyngdi í dag dóm yfir Rögnvaldi Þorkelssyni, fyrrverandi eiganda bakarísins Kornsins. Hlaut Rögnvaldur 16 mánaða skilorðsbundinn dóm og var gert að greiða rúmlega 97 milljónir í sekt vegna meiri háttar skattalagabrota í rekstri bakarísins og annarra félaga. Áður hafði hann hlotið 12 mánaða skilorðsbundinn dóm og verið gert að greiða 47,4 milljónir í sekt.

Brot mannsins ná til tímabilsins fram að febrúar 2017, en þá seldi hann félagið til annars eiganda.

Fljót­lega eft­ir söl­una 2017 komu upp rekstr­ar­erfiðleik­ar og stöðvaði baka­ríið alla starf­semi sína í des­em­ber 2018, en Kornið rak þegar mest var 12 út­sölustaði á höfuðborg­ar­svæðinu og bakarí í Hjalla­brekku.

Upphaflega þrjú ákærð

Upp­haf­lega voru þrjú ákærð í mál­inu. Þar af er Rögn­vald­ur, sem sá um rekst­ur fé­lags­ins, en hann hafði tekið við fyr­ir­tæk­inu af for­eldr­um sín­um sem stofnuðu Kornið árið 1981. Þá var einnig kona ákærð, en hún var dag­leg­ur stjórn­andi fé­lags­ins. Að lok­um var þriðji maður ákærður, en hann var skráður fyr­ir fé­lag­inu PC-tölv­an. Var hlut­ur hans tek­inn út úr mál­inu fyr­ir aðalmeðferð og konan var sýknuð í héraði.

Rögnvaldur áfrýjaði dómi sínum hins vegar til Landsréttar.

Í héraðsdómi var hann fundinn sekur um að hafa oftalið rekstrargjöld í bókhaldi Kornsins á árunum 2013-2016 og í öðru félagi upp á 7,3 milljónir. Var það gert með til­hæfu­laus­um reikn­ing­um frá PC-tölv­unni, en þeir voru upp á sam­tals 161 millj­ón á tíma­bil­inu.

Félaginn vitnaði gegn Rögnvaldi

Rögnvaldur neitaði sök bæði fyrir Landsrétti og héraði og sagðist hafa starfað „á gólfinu“ hjá fyrirtækinu, en komið að stærri ákvörðunum. Þá sagðist hann í héraði einnig hafa verið eig­andi, þótt ann­ar aðili hafi verið skráður eig­andi. Kom fram við meðferð máls­ins að Rögn­vald­ur hafði ekki viljað vera skráður eig­andi vegna skulda­mála.

Eig­andi PC-tölva vitnaði í mál­inu gegn Rögn­valdi og sagði hann hafa fengið sig til gefa út reikn­ing­ana. Þegar búið væri að greiða þá til PC-tölva hefði hann farið og tekið þá út í reiðufé, sjálf­ur fengið 10%, en skilað rest­inni í reiðufé til Rögn­vald­ar. Staðfesti hann að kon­an hefði ekk­ert vitað af þessu og að upp­hæðirn­ar sem áttu að vera á reikn­ing­un­um hefðu alltaf komið frá Rögn­valdi.

Sem fyrr segir var Rögnvaldur fundinn sekur í héraði fyrir stórfelld skattalagabrot sem þóttu sýna styrkan og einbeittan brotavilja. Hlaut hann 12 mánaða skilorðsbundinn dóm og var gert að greiða 47,4 milljónir í sekt.

Staðfest að hann var raunverulegur framkvæmdastjóri

Landsréttur komst að sömu niðurstöðu og sakfelldi hann fyrir að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum fyrir Kornið með því að hafa fært til gjalda kostnað á grundvelli tilhæfulausra reikninga frá tveimur félögum og með að hafa staðið skil á efnislega röngum virðisaukaskattskýrslum og offramtalið innskatt á grundvelli tilhæfulausra reikninga frá PC-tölvunni.

Landsréttur staðfesti að Rögnvaldur hafi verið raunverulegur framkvæmdastjóri félaganna og að það væri hafið yfir allan vafa að hann hafi óskað eftir því við félaga sinn, sem síðar vitnaði gegn honum, að gefnir væru út tilhæfulausir sölureikningar þar sem Rögnvaldur fengi 90% í reiðufé af brotunum, en félaginn 10%.

Einbeittur brotavilji og sektin tvöfölduð

Einnig var hann fundinn sekur um að hafa sjálfur skilað inn efnislega röngum skattframtölum og komist hjá því að greiða tekjuskatt upp á 16,8 milljónir.

Í dómi Landsréttar er honum metið til refsiþyngingar að brot hans hafi verið stórfelld og sýnt einbeittan brotavilja. Hlaut hann 16 mánaða skilorðsbundinn dóm og var sekt hans rúmlega tvöfölduð, eða samtals 97 milljónir.

Þá var Rögnvaldi gert að greiða 11,7 milljónir í sakarkostnað í héraði og 2 milljónir í áfrýjunarkostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert