Veðurstofan bíður eftir að eldgosið hefjist

Veðurstofan telur líklegt að eldgos hefjist í dag eða um …
Veðurstofan telur líklegt að eldgos hefjist í dag eða um helgina. mbl.is/Eyþór

Veðurstofa Íslands gengur út frá því að áberandi aukin skjálftavirkni verði fyrirboði næsta eldgoss á Reykjanesskaganum. Líklegt þykir að gos hefjist í kvöld eða um helgina. 

Þetta segir Sigríður Kristjánsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Sigríður segir minnkandi skjálftavirkni undanfarna daga ekki endilega til marks um að eldgos sé að hefjast, en magn kviku sem hefur safnast undir Svartsengi gefi til kynna að eldgos sé mögulega í vændum.

Óvíst um tímaramma fyrirboðans 

Spurð hversu lengi kröftug skjálftavirkni gæti varað áður en kvika brýst upp á yfirborðið svarar Sigríður að erfitt sé að segja til um það. Síðast hafi hrinan varað í um hálftíma, sem gæti endurtekið sig, en það gæti líka liðið lengri tími. 

„Það fer aðeins eftir því hvert kvikan leitar. Það virðist vera að þegar gos kom upp í janúar við Hagafell, þá þurfti kvikan að færa sig lengra neðanjarðar, þá liðu fjórar eða fimm klukkustundir þangað til kvikan kom upp á yfirborðið,“ segir Sigríður og útskýrir að tímarammi fyrirboðans fari eftir því hversu langa leið kvikan þurfi að fara áður en hún brýst upp. 

Er þetta eitthvað sem þið sjáið þegar þetta er að gerast eða sjáið þið þetta bara eftir á? 

„Við getum mögulega séð þetta þegar þetta er að gerast. Þá getum við fylgst með hvernig skjálftavirknin færist, hvernig hún þróast. Það gefur okkur kannski vísbendingu um hvar kvikan gæti komið upp.“

Ávallt átök þegar kvika brýst á yfirborðið

Aðspurð segir Sigríður þær miklu sprungur, sem hafa myndast á Reykjanesskaganum eftir jarðhræringar undanfarinna mánuða og ára, hafa einhver áhrif á minnkandi skjálftavirkni. 

„Það spilar að einhverju leiti inn í að það er bara búið að losa alla spennuna úr skorpunni. Þá hristist hún ekki jafn mikið. En þetta eru alltaf svolítil átök þegar kvika er að troða sé upp á yfirborðið.“

Undirbúin undir eldgos um helgina

Eruð þið sammála Ármanni Höskuldssyni, eld­fjalla­fræðing­i við Jarðvís­inda­stofn­un Há­skóla Íslands um að gosið verði í kvöld eða um helgina? 

„Já ég held að það sé svona það sem við erum undirbúin fyrir.“

Spurð hvernig það sé metið segir hún það gert með því að skoða hversu mikið kvikumagn sé komið inn á kerfið, samanborið við hversu mikil kvika fór út úr kerfinu í síðasta gosi. 

„Við erum komin upp að þeim mörkum. Það eru eitthvað um 9 milljónir rúmmetra komnir inn í kerfið núna og það fóru eitthvað milli 8 og 13 milljónir rúmmetra út síðast,“ segir Sigríður og bætir við að talið sé að næsta gos verði við Stóra-Skógfell. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert