Eldgos frekar en kvikuhlaup

Ármann Höskuldsson, prófessor við Háskóla Íslands.
Ármann Höskuldsson, prófessor við Háskóla Íslands. Samsett mynd/Björn Oddsson

Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, segir öll teikn á lofti að eldgos brjótist út á Reykjanesskaganum og mjög líklega um helgina sem yrði þá sjöunda gosið á tæpum þremur árum.

Kvikumagn undir Svartsengi heldur áfram að aukast og hraði landriss hefur haldist nokkuð jafn. Mat vísindamanna á Veðurstofunni er að auknar líkur séu á eldgosi á næstu dögum þar sem líklegasti gosstaðurinn verði á milli Hagafells og Stóra-Skógfells.

Þetta hlýtur að fara að gefa sig

Eldvörp sjást hér vestan megin á kortinu, ásamt hrauni sem …
Eldvörp sjást hér vestan megin á kortinu, ásamt hrauni sem kennt er við þau. Kort/map.is

Spurður út í hans mat á stöðunni á Reykjanesskaganum segir Ármann:

„Eins og þetta lítur út núna þá verður þetta örugglega eldgos frekar en kvikuhlaup og ef það kemur upp á Sundhnúkagígaröðinni þá verður það í kvöld eða um helgina. Þetta hlýtur að fara að gefa sig nema að það sé eitthvað að breytast,“ segir Ármann við mbl.is. 

Ármann telur að gosið verði með sambærilegum hætti og gosið 8. febrúar. Það verði stutt enda sé lítil kvika undir yfirborði.

Hér má sjá kort sem sýnir gosið sem sem varð …
Hér má sjá kort sem sýnir gosið sem sem varð 14. janúar, en kortið er frá þeim degi. Kort/mbl.is

Þetta endar í Eldvörpum

Ármann hefur lengi verið þeirrar skoðunar að eldgos í Eldvörpum sé væntanlegt en á hvaða tímapunkti það verði sé ekki gott að segja til um. Síðast gaus á því svæði á 13. öld

„Þetta endar í Eldvörpum þar sem miðjan er í flekamótunum og þá hættir þessi atburðarrás í Sundhnúkagígaröðinni,“ segir Ármann.

Hann segir að eldgos í Eldvörpum muni þá væntanlega standa lengur yfir og verði stærri í sniðum.

„Það er auðveldara fyrir kvikuna að fara þar upp þegar hún kemst loks þangað og ég á alveg von á því að ef það byrjar að gjósa í Eldvörpum þá fáum við síendurtekna atburði eins og í gosunum í Sundhnúkagígaröðinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert