Kvika ekki komin á hreyfingu en mjög stutt í gos

Síðasta gos var 8. febrúar.
Síðasta gos var 8. febrúar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það bendir ekkert til þess að kvika sé komin á hreyfingu og sennilega er þessi skjálftahrina sem varð í nótt hreyfing og misgengi vegna spennu í skorpunni. Þetta segir okkur það hins vegar að  stutt er í eldgos. Það er að koma að þolmörkum og ég sagði um daginn að gosið kæmi 1. mars og ég er að spá í halda mig við það.“

Þetta segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is.

Þorvaldur segir hins vegar að það gæti byrjað að gjósa í dag og í síðasta lagi á mánudaginn en ef atburðarrásin haldi áfram með sama hætti þá er mjög stutt í gos.

Nægilega mikið kvikumagn til þess að lyfta lokinu

„Það er nálægt því að vera komið nægilega mikið kvikumagn til þess að lyfta lokinu. Við erum komin innan við þau óvissumörk á því rúmmáli og landrisið er orðið það mikið að það er komið í svipaða stöðu og það hefur verið áður,“ segir Þorvaldur.

Ég sagði um daginn að gosið kæmi 1. mars og …
Ég sagði um daginn að gosið kæmi 1. mars og ég er að spá í halda mig við það, segir Þorvaldur. mbl.is/Arnþór Birkisson

Þorvaldur segir að allar vísbendingar séu um að það styttist óðum í eldgos og langlíklegasti gosstaðurinn verði á milli Hagafells og Stóra-Skógfells.

„Það er samt ekki hægt að útiloka að sprunga opnist eitthvað norðar eða sunnar og mestar líkur er á að það komi upp á Sundhnúka reininni,“ segir Þorvaldur.

Hann segir að jarðskjálftarnir sem hafa verið nokkuð stöðugir í Fagradalsfjalli hafi allir verið á 7-10 kílómetra dýpi.

„Mér dettur helst í hug að kvika úr dýpra hólfi sem er á 10-15 kílómetra dýpi sé að flæða upp í grynnra hólfið sem þýðir það að það er hugsanlega einhver færsla á kviku inn í þessu stóra og dýpra hólfi. Færslan getur verið að færast frá Fagradalsfjalli og eitthvað vestur eftir. Þá gæti það valdið einhverju sigi og skjálftum í Fagradalsfjalli. Ef sú túlkun er rétt þá dregur það úr líkunum að það verði gos undir Fagradalsfjalli,“ segir Þorvaldur.

Getur haldið áfram næstu mánuði og jafnvel ár

Þorvaldur segir að á meðan kvikan haldi áfram að streyma úr dýpra hólfinu og að hún sé nægilega mikil til að halda þessu gangandi þá sé alveg viðbúið að þessir atburðir haldi áfram næstu mánuði og jafnvel árin og að upp komi gos á þriggja vikna fresti sem standi yfir í einn til þrjá daga.

„Það er hugsanlegt að stór jarðskjálfti geti klippt á þessa atburðarrás en langmestar líkur eru á þetta haldi bara áfram,“ segir Þorvaldur en sex eldgos hafa verið á Reykjanesskaganum á tæpur þremur árum.

Hann segir að menn ættu alveg að hugsa út í það að opna Grindavík, Svartsengi og Bláa lónið aðeins fyrr eftir eldgos en þegar nær dregur næsta gosi þá geti menn farið að taka varlegar á hlutunum og ekki gista á stöðunum né stunda vinnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert