Varasamar aðstæður í brattlendi

Skíðamenn við utanbrautarskíðun settu af stað tvö flekaflóð í Oddsskarði …
Skíðamenn við utanbrautarskíðun settu af stað tvö flekaflóð í Oddsskarði og eitt flekaflóð í Stafdal. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Varasamar aðstæður eru fyrir fólk á ferð í brattlendi á Austfjörðum þar sem léleg binding er milli vindfleka og eldri snjós í fjallshlíðum.

Talsvert hefur snjóað síðustu daga og hafa vindflekar byggst upp. Þetta kemur fram í tilkynningu Veðurstofunnar.

Skíðamenn við utanbrautarskíðun settu af stað tvö flekaflóð í Oddsskarði og eitt flekaflóð í Stafdal fyrr í dag. Skíðamanni var bjargað undan flóðinu sem féll í Stafdal en enginn slys urðu á fólki í Oddsskarði. Öll snjóflóðin féllu í ótroðnum leiðum sem skíðafólk nálgaðist úr skíðalyftum.

Svæðisbundna snjóflóðaspáin er á appelsínugulum fyrir Austurland.

Skafsnævisvandamál

Þá hefur töluvert hefur snjóað á Norðurlandi eftir hlákuna í byrjun vikunnar og nokkur fremur þunn náttúruleg snjóflóð fallið síðan þá á Tröllaskaga og í Eyjafirði.

Svæðisbundna snjóflóðaspáin á Tröllaskaga og í Eyjafirði er á appelsínugulum og varað er við skafsnævisvandamáli og viðvarandi veiku lagi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert