„Ættum að geta gengið frá tímamóta kjarasamningum“

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir gott gengi á fundum í kjaraviðræðum breiðfylkingar stéttarfélaga og SA gefa tilefni til bjartsýni.  

Hún áréttir þó að viðræðunum sé ekki lokið fyrr en búið er að undirrita kjarasamning. Næsti fundur hefur verið boðaður í Karphúsinu klukkan níu í fyrramálið. 

Að ýmsu að huga við gerð kjarasamnings

Spurð hvort hún sé bjartsýn á að hægt verði að undirrita kjarasamninga fyrir lok vikunnar svarar Sigríður: 

„Ég held að við séum mjög langt komin og ættum að geta gengið frá tímamóta kjarasamningum á næstu dögum að því gefnu að ekkert komi upp.“

Sigríður útskýrir að þegar unnið sé að gerð langtíma kjarasamninga þá þurfi bæði að ganga frá því sem snýr að launaliðnum, kostnaðarmati og forsenduákvæðum. Á sama tíma þurfi að ganga frá fjölmörgum sérmálum sem snúa að hverju og einu stéttarfélagi eða landssambandi. 

„Í þessu tilviki erum við að vinna með mjög breiðum hóp af stéttarfélögum og landssamböndum sem eru með misjafnar áherslur eða sérmál á oddinum,“ segir Sigríður sem gefur ekki upp hvað það er nákvæmlega sem deilt er um þessa dagana enda samningsaðilar í fjölmiðlabanni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert