„Atburðinum er klárlega lokið“

Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur við Háskóla Íslands, telur ólíklegt að gos …
Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur við Háskóla Íslands, telur ólíklegt að gos verði á allra næstu klukkustundum.

Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur við jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, telur ekki líklegt að eldgos verði á næstu klukkustundum. Þótt atburði gærdagsins sé lokið muni líklega gjósa aftur á næstunni enda mælist enn aflögun á svæðinu.

„Atburðinum er klárlega lokið, honum lauk án þess að það yrði eldgos,“ segir Ármann.

Skjálftahrinur leiði ekki alltaf til goss

Skjálftahrinur hafa gjarnan verið fyrirboði eldgoss. Hvers vegna ekki núna?

„Við höfum margoft séð þetta gerast, til dæmis í Kröflu, að kvika komi ekki á yfirborðið en dragist inn í jarðskorpuna. Núna er það þannig, þetta hólf þolir ekki nema ákveðinn þrýsting og síðan springur það. Og núna var greinilega ekki nægur þrýstingur í hólfinu til þess að koma kvikunni upp á yfirborðið.“

Betri aðstæður til mælinga

Beðið er niðurstaðna úr GPS-mælingum sem munu leiða í ljós frekari upplýsingar um magn kvikunnar og hreyfingar hennar auk þess hvar mesta þenslan var. Líklegt er að þær berist eftir tvo til þrjá daga. 

Ármann segir að aðstæður til mælinga séu nú betri en fyrr í vetur þar sem snjóléttara er nú heldur en í fyrri gosum.

„Nú eru komnar ágætis aðstæður, snjórinn farinn og þá virkar gervihnattarradarinn betur,“ segir Ármann.

Enn mælist aflögun á svæðinu. Þá er þessu ekki lokið í stóra samhenginu?

„Atburðurinn er í fullum gangi og verður það næstu ár,“ segir Ármann í lokin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert