Vill auka samtalið við grasrótina

Trausti er nýkjörinn formaður Bændasamtaka Íslands.
Trausti er nýkjörinn formaður Bændasamtaka Íslands. Samsett mynd

Trausti Hjálmarsson, nýkjörinn formaður Bændasamtaka Íslands, hyggst leggja áherslu á aukið samtal við grasrótina auk þess að efla samstöðu bænda í stórum og mikilvægum verkefnum.

Trausti, sem var áður formaður deildar sauðfjárbænda hjá Bændasamtökum Íslands, var í dag kjörinn formaður til næstu tveggja ára og mun hann taka við formennsku á Búnaðarþingi um miðjan mars.

Hljómgrunnur fyrir málflutningi Trausta

Að sögn Trausta snerist framboð hans fyrst og síðast um aukið samtal við grasrótina auk þess að efla samstöðu bænda í mikilvægum verkefnum.

„Það er það sem var verið að kjósa og ég tek því þannig að það hafi verið hljómgrunnur fyrir mínum málflutningi í þá átt,“ segir Trausti ánægður með traustið.

Næsta verkefni Bændasamtakanna er þó kosning nýrrar stjórnar samtakanna en ný stjórn verður kjörin á búnaðarþingi helgina 14.-15. mars, eða sömu helgi og Trausti tekur við formennskunni.

Auðmjúk þarf stjórnin að leggja við hlustir

Hvað átt við með auknu samtali við grasrótina?

„Það snýst um það að forysta bænda þarf að vera duglegri að eiga samskipti og samtal við grasrótina út í feltinu. Það eru bændurnir sem að byggja upp Bændasamtökin og við þurfum að hafa þá með okkur, til þess þurfum við að vera auðmjúk alla daga og hlusta eftir því sem bændur hafa að segja,“ svarar Trausti og bætir við:

„Hvaða verkefni þeir eru að fela okkur og hver áhersla þeirra er. Til þess að koma auga á það þá þurfum við að vera duglegri að heimsækja bændur heim í héröð, út um landið, taka þessi samtöl og vinna með það í starfi okkar í stjórninni.“

Trausti leggur áherslu á mikilvægi þess að bændur séu sameinaðir í Bændasamtökunum og standi vörð um samtökin. Til þess að svo megi vera segir Trausti ekki síður mikilvægt að samtökin vinni inn á við gagnvart bændum, þannig að þeir finni áþreifanlega fyrir því að samtökin standi á bak við þá.

Eilífðarverkefni bændasamtakanna

Trausti segir eilífðarverkefnin þó ekki síður mikilvæg. Verkefnin sem alltaf eru á borðum samtakanna. Í því samhengi nefnir hann afkomu bænda og samtal samtakanna við þjóðina.

„Kynna okkur fyrir þjóðinni og standa keik á bak við okkar mikilvægi sem partur af innviðum íslenskrar þjóðar, matvælaframleiðendur og bændur í íslensku samfélagi.“

Hann áréttir að afkoma bænda sé eitt mikilvægasta verkefnið í hagsmunagæslu bænda, sama hvers kyns landbúnaðurinn er.

Þegar kemur að afkomu bænda segir Trausti mikilvægt að efla samstarfið við pólitíkina sem oft og tíðum tekur ákvarðanir sem hafa áhrif á starfsumhverfi og starfsskilyrði bænda.

„Þar þurfum við að þétta raðirnar líka, gagnvart því starfi í pólitíkinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka