Foreldrafélög fordæma vinnubrögðin

Fáskrúðsfjörður í Fjarðabyggð.
Fáskrúðsfjörður í Fjarðabyggð. mbl.is

Foreldrafélög leik- og grunnskóla í Fjarðabyggð mótmæla fyrirhuguðum breytingum bæjarstjórnar sveitarfélagsins í fræðslumálum.

„Við fordæmum þau vinnubrögð sem viðhöfð voru þar sem ekkert samráð var haft við stjórnendur, foreldra eða aðra aðila skólasamfélagsins í heild. Við stöndum af heilum hug að baki stjórnendum og öðru starfsfólki innan skóla Fjarðabyggðar,” segir í yfirlýsingu frá félögunum.

Í lok síðasta mánaðar var lögð fram tillaga um breytingar á stjórnkerfi fræðslumála í Fjarðabyggð sem leiddi til þess að meirihlutasamstarfið sprakk.

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar sendi daginn eftir frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að henni þætti miður að fram hefðu komið misvísandi upplýsingar í tengslum við breytingar á skólamálum. Vísaði hún ásökunum skólastjórnenda á bug um að ekkert samráð hefði verið haft.

Lýsa þekkingarleysi og vanvirðingu

„Þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið í þessu máli lýsa að okkar mati þekkingarleysi og vanvirðingu á því starfi sem á sér stað innan skólanna og óttumst við að þjónusta við börn muni skerðast ef af breytingunum verður,” segir í yfirlýsingu foreldrafélaganna.

Vísað er í 8. grein laga um grunnskóla þar sem fram kemur að starfa skuli skólaráð innan hvers skóla og það skuli fá allar meiriháttar breytingar um skólahald og starfsemi skóla áður en endanleg ákvörðun sé tekin.

Einnig er vísað í 11. grein laga um leikskóla, þar sem kemur fram að foreldraráð hafi umsagnarrétt um allar meiriháttar breytingar á leikskólastarfi.

„Ef fyrirhugaðar eru breytingar á skólastarfi innan Fjarðabyggðar óskum við eftir því að samráð verði haft við foreldrafélögin auk lögbundins samráðs við foreldraráð og skólaráð,” segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert