„Mér finnst arðsemi Landsvirkjunar ekki há“

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að þrátt fyrir besta rekstrarár í sögu Landsvirkjunar á síðasta ári sé arðsemi fyrirtækisins ekki há. Stjórnarformaður fyrirtækisins sagði árangurinn til kominn vegna endursamninga við stórnotendur á síðustu árum, fjárfestingar í nýjum hagkvæmum virkjunum síðasta áratuginn og niðurgreiðslu skulda.

Þetta kom fram á ársfundi Landsvirkjunar sem nú er í gangi í Hörpu.

Jónas Þór Guðmundsson, stjórnarformaður fyrirtækisins, sagði síðustu tvö ár í rekstrinum hafa verið einstök og aðstæður mjög góðar fyrir orkufyrirtækið. Sagði hann áfram horfur á góðri afkomu, en að ekki ætti að gera ráð fyrir jafn góðum árangri fyrr en endursamningu við Alcoa Fjarðarál lýkur og þegar framkvæmdum við næstu aflstöðvar lýkur.

Hagnaður Landsvirkjunar á síðasta ári nam um 209 milljónum dala, eða rúmlega 29 milljörðum. Árið áður var hagnaðurinn 161 milljón dala, eða um 22,6 milljarðar á gengi dagsins í dag. Ákvað stjórn fyrirtækisins að leggja til að greiddur verði 20 milljarða króna arður af starfsemi fyrirtækisins til eiganda síns, íslenska ríkisins, vegna síðasta rekstrarárs.

Þrátt fyrir þessa góðu niðurstöðu sagði Hörður að ekki væri um neinn ævintýralega arðsemi að ræða. „Mér finnst arðsemi Landsvirkjunar ekki há,“ sagði hann á fundinum og bætti við að arðsemi eigin fjár fyrirtækisins hefði verið 9,1% í fyrra, en að krafa á arðsemi fyrirtækisins væri 7,5%. Til samanburðar hefur arðsemi eigin fjár fyrirtækisins fjögur árin þar á undan verið á bilinu 3,3 til 7,3%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert