Lífeyrissjóðir greiða 61 milljarð fyrir Heimstaden

Kaupverðið nemur 61 milljarði króna.
Kaupverðið nemur 61 milljarði króna. Samsett mynd

Kaupverð eigna leigufélagsins Heimstaden, sem sjóður í eigu íslenskra lífeyrissjóða í stýringu Stefnis keypti, nemur um 61 milljarði króna.

Þetta herma heimildir mbl.is. 

Aðili tengdur kaupunum segir að nokkur afsláttur hafi verið gefinn af bókfærðu virði eignanna sem metið er á um 74 milljarða króna en fasteignamat þeirra hleypur nærri 76 milljörðum króna. Heimstaden gaf sjálft út í október í fyrra að það mæti bókfært virði eignanna á um 75 milljarða króna.

Í heild er um að ræða 143 þúsund fermetra sem skipta um hendur. Sé tekið mið af fermetrafjölda eru greiddar 410 þúsund krónur fyrir hvern fermetra.

Greiða 25 milljarða á þessu ári 

Sjóðurinn safnaði 40 milljörðum til kaupanna. Greiddir verða 25 milljarðar króna á þessu ári en 15 milljarðar kr. fara í að lækka skuldahlutfall á næsta ári og er helsta markmið nýrra eigenda að minnka skuldahlutfall.

Heimildir mbl.is herma að skuldahlutfall eignanna sé rúm 50% og verða skuldirnar yfirteknar að óbreyttu og ekki búist við því að lán verði endurfjármögnuð nema að mjög takmörkuðu leyti.

Þriðjungur virði eignanna er bundið í eignum á Ásrbú.
Þriðjungur virði eignanna er bundið í eignum á Ásrbú. mbl.is/Sigurður Bogi

Þriðjungur virðisins í Ásbrú 

Eins og fram kom í tilkynningu eru kaupin til meðferðar hjá Samkeppniseftirlitinu. Athygli vakti að ekkert kaupverð var gefið upp þegar tilkynnt var um kaupin en viðræður hafa verið í gangi um allnokkurt skeið.

Seljandinn er norska fjárfestinga­félagið Fredensborg AS sem er móðurfélag Heimstaden AB, sem er eitt stærsta íbúðafélag Evrópu. Fyrst um sinn mun félagið halda sama nafni og áður. 

Í heild er um að ræða 1.625 eignir en að auki var Heimstaden í uppbyggingarverkefnum á 41 stað á landinu að því er fram kemur í tilkynningu frá Heimstaden í október í fyrra. Um þriðjungur virðis eignanna er bundinn í fasteignum á Ásbrú í Reykjanesbæ. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert