Sýknuð af ákæru um að ljúga til um nauðgun

Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur sýknað konuna af ákæru um rangar …
Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur sýknað konuna af ákæru um rangar sakargiftir. mbl.is/Þorsteinn

Kona sem var ákærð fyrir að ljúga til um nauðgun í júlí árið 2021 hefur verið sýknuð fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra. 

Hafði ákærða ásakað mann um nauðgun í partíi í heimahúsum en maðurinn fyrirfór sér í kjölfar ákærunnar og var hún þar af leiðandi felld niður. Í kjölfarið var konan ákærð fyrir rangar sakargiftir gegn manninum. Byggði rökstuðningur ákæruvaldsins gegn ákærðu á því að lýsing hennar hefði tekið breytingum og samræmdist ekki framburði vitna.

Fór ákæruvaldið fram á að konan yrði dæmd til refsingar og greiðslu sak­ar­kostnaðar fyr­ir rang­ar sak­argift­ir. Þá var gerð einka­rétt­ar­krafa á hend­ur kon­unni af hálfu tveggja lögerf­ingja manns­ins um þrjár millj­ón­ir í miska­bæt­ur fyr­ir hvorn erf­ingja en bótakröfu var vísað frá. 

„Þetta verður litla leyndarmálið okkar“

Kvaðst konan hafa farið inn á baðherbergi með manninum og þau kysst. Henni hafi þá snúist hugur um að stunda kynlíf með honum og beðið hann um að hætta. Sagði hún manninn hafa hunsað orð hennar og átt kynmök við hana án hennar samþykkis.

Minnti hana að hún hefði tvisvar kallað á hjálp og taldi sig hafa gert það nokkuð hátt en að hávær tónlist hefði verið í íbúðinni. Kvaðst hún hafa verið búin að „slökkva á skynfærunum“  á tíma og hefði vonast til þess að maðurinn yrði fljótlega búinn.

Kváðust vitni ekki hafa heyrt konuna kalla á hjálp en þau sögðu tónlistina ekki hafa verið mjög háværa og íbúðina hljóðbæra. Samkvæmt vitnisburði tveggja þeirra heyrðu þau þó ekki neitt frá baðherberginu nema á milli laga. 

Sagði konan manninn hafa hvíslað að sér „þetta verður litla leyndarmálið okkar,“ eftir að hann lauk sér af.  

Ekkert lesið úr stunum um líðan 

Við læknisskoðun á bráðamóttöku kynferðisofbeldis komu í ljós áverkar á konunni sem bentu til þvingunar, þar á meðal á bringu en konan sagði manninn hafa haldið sér niðri.

Í málsgögnum lágu einnig fyrir vottorð tveggja sálfræðinga og ráðgjafa á Stígamótum sem öll sögðu konuna bera einkenni sem samsvöruðu einkennum sem þekktust hjá fólki sem hefði upplifað alvarleg áföll eins og líkamsárás, nauðgun, stórslys eða hamfarir.

Kváðust vitni úr partíinu hafa heyrt stunur og fliss af baðherberginu og tekið upp myndband fyrir framan baðherbergishurðina. Þau hafi einnig heyrt manninn spyrja hvort það sem hann væri að gera væri í lagi og konuna svara játandi, en þau orðaskipti voru ekki á upptöku.  

„Á upptökunni heyrist þungur andardráttur út af baðherberginu og smá stunur. Að áliti dómsins verður ekkert lesið úr þeim stunum um líðan þess sem þær koma frá. Þá getur dómurinn ekki greint að ákærða heyrist þar flissa eins og vitni hafa haldið fram,“ segir í dómsuppkvaðningu. 

Ekki ótrúverðug þrátt fyrir skilaboð

Kvaðst vitni úr partíinu hafa fengið tvenn skilaboð frá konunni á Snapchat sem bentu til þess að um hefði verið að ræða eðlileg kynmök með samþykki konunnar, en í öðrum skilaboðunum hafi hún sagst hafa stundað kynlíf með strák og að það hafi verið gott. Í hinum skilaboðunum hafi hún gantast með það að hún væri með erting í auga i kjölfar þess að maðurinn hefði fengið sáðlát framan í hana. Hvorug skilaboðanna liggja fyrir í málinu. 

Kannaðist ákærða við að hafa sent fyrri skilaboðin en gat ekki útskýrt hvers vegna. Hún kannaðist aftur á móti ekki við seinni skilaboðin. 

„Þótt benda megi á einstök atriði sem segja má að veiki framburð ákærðu, einkum
varðandi skilaboð hennar til vitnisins J, er það þó álit dómsins, þegar málið er skoðað
heildstætt, að ákærða sé ekki ótrúverðug um að hún hafi frosið og upplifað háttsemi A
sem kynferðisbrot.“ 

Höfðu meiri tengsl við manninn

Segir einnig í dómsuppkvaðningu að myndbandið og/eða frásögn eins vitnisins virðist hafa ráðið mikið um afstöðu sumra vitnanna og eitt þeirra hafi vart getað greint á milli þess sem hann sjálfur hefði orðið vitni að og þess sem honum hafði verið sagt. 

Kom fram fyrir dómi að tvö vitni töldu sig strax vita að ekki hefði verið um kynferðisbrot að ræða og höfðu nokkur vitnanna strax rætt þetta mikið í kjölfar atvika.

„Fyrir dómi kom einnig fram að vitnin L og F höfðu meiri tengsl við A en ráðið varð af lögregluskýrslum þeirra. Af framburði vitnanna verður ráðið að nær strax hafi myndast einhvers konar samstaða þessa hóps, auk vitnisins J, með A en gegn ákærðu,“ segir í dómsuppkvaðningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert