Símtölum rignir yfir Skattinn

Rúmlega 2.000 símtöl hafa verið að berast Skattinum vegna skattframtala …
Rúmlega 2.000 símtöl hafa verið að berast Skattinum vegna skattframtala á dag síðustu daga. Samsett mynd/mbl.is/Kristinn Magnússon

Frestur til að skila skattframtali rennur út á morgun. Nú þegar hafa um 56% einstaklinga skilað skattframtali og áætlar Skatturinn að um 75% framtala verði skilað fyrir lok almenns skilafrests. 13 þúsund símtöl hafa borist Skattinum vegna skattframtala í þessum mánuði.

Þetta segir Helga Lilja Aðalsteinsdóttir, verkefnastjóri framtalsaðstoðar hjá Skattinum, í samtali við mbl.is.

Helga segir að það gangi vel hjá landsmönnum að skila framtali. Fyrr í dag höfðu 56% einstaklinga skilað framtali, eða 193 þúsund. Er það betra en á sama tíma í fyrra þegar 53% einstaklinga höfðu skilað.

Hafa svarað um 13 þúsund símtölum

Rúmlega 2.000 símtöl hafa verið að berast Skattinum vegna skattframtala á dag síðustu daga. Helga segir að starfsfólk Skattsins hafi svarað um 13 þúsund símtölum frá 1. mars.

„Það eru bara allar hendur á dekk. Allar deildir Skattsins koma að þessu og við bara mönnum sérstakt símanúmer,“ segir Helga.

Símtölin eru mismunandi eins og þau eru mörg en þó er hægt að leysa 95% vandamála í gegnum síma, að hennar sögn.

Gera ráð fyrir því að 75% skili sér

Helga segir að Skatturinn geri ráð fyrir því að 75% af framtölum skili sér fyrir lok almenns skilafrests og því er von á nokkrum fjölda næsta sólarhringinn.

„Eftir lok skilafrests tínist alltaf eitthvað inn af framtölum frá einstaklingum sjálfum en megninu af þeim framtölum sem út af standa er skilað af fagaðilum sem hafa framlengdan frest til 15. apríl,“ segir Helga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert