„Svo kemur í ljós að heyrnin er vandamálið“

Heyrnarskerðing byrjar meira og meira með aldrinum.
Heyrnarskerðing byrjar meira og meira með aldrinum. mbl.is/Ásdís

Kristbjörg Gunnarsdóttir, heyrnarfræðingur frá Heyrnar- og Talmeinastöð Íslands, segir dæmi um að börn með skerðingu á heyrn séu greind með hegðunarvandamál og mikilvægt sé að byrja aftur á skimun í grunnskólum samhliða öðrum mælingum.

Ísland er eina landið í Evrópu sem ekki mælir heyrn barna í grunnskólum. Síðan 2011 hefur bara verið skimað fyrir vexti, sjón og heilsu og líðan í 1., 4., 7. og 9. bekk í grunnskólum hérlendis. 

„Heyrnarskerðing byrjar meira og meira með aldrinum. Svo eru börn með eyrnabólgu og miðeyrna vandamál sem gerast á fyrstu árum, sem gætu haft áhrif á heyrn til frambúðar. Við erum að missa af þessu börnum með því að skima þau ekki aftur,“ segir Kristbjörg í samtali við mbl.is.

Greind sem hegðunarvandamál

Hún segir dæmi um að börn með heyrnarskerðingu séu greind með hegðunarvandamál.

„Það að vera heyrnarskertur sést ekki utan á fólki og það er ekki fyrsta hugsun hjá fólki ef það eru einhver vandræði. Það er alltaf athyglisbrestur, einhverfa, hegðunarvandamál og það er ýmislegt sem kemur þarna fyrst. Það er verið að setja börnin í þennan pakka og svo kemur í ljós að það er heyrnin sem er vandamálið,“ segir Kristbjörg. 

„Við erum að fá börn allt of seint til okkar. Í kringum 10 til 12 ára, jafnvel á unglingsaldri, og þá eru þessir krakkar búnir að vera heyrnarskertir í mörg ár án þess að nokkrum detti það í hug,“ segir Kristbjörg og bætir við að heyrn sé eitthvað sem fólk hugsar ekki um dags daglega, enda sé almenn þekking á heyrn ekki mikil.

Skref aftur á bak

Kristbjörg segir ef þessi skólaskimun væri gerð væri hægt að ná sem flestum sem fyrst.

„Í fullkomnum heimi værum við að skima þau 4, 6 og 10 ára. Okkur finnst mörgu hafa farið aftur eftir að þessi skólaskimun var lögð niður. Við erum með færri heyrnarskert börn í dag miðað við 2015 en samkvæmt öllu þá ætti þeim ekki að hafa fækkað svona mikið,“ segir Kristbjörg.

Árið 2015 voru 250 börn á skrá hjá Heyrnar- og Talmeinastöð Íslands með heyrnaskerðingu en í dag um 200 börn.

„Ísland er lítið land og er oft erfitt að eiga við tölfræði í þessu landi en þá er samt mikill munur, því það eru pottþétt börn þarna út í samfélaginu með heyrnaskerðingu sem ekki er vitað um,“ bætir hún við.

Í nýburaskimun greinast um 1-3 börn af hverjum þúsund börnum. Vel gengur að ná börnum með alvarlega heyrnarskerðingu snemma eða eru fædd heyrnarlaus að sögn Kristbjargar. Erfiðara sé þó að ná hinum hópnum sem glímir við vægari heyrnarskerðingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert