Íslendingurinn ekki á sakaskrá hér á landi

Byssurnar fundust í farangri mannsins á flugvelli í Maryland í …
Byssurnar fundust í farangri mannsins á flugvelli í Maryland í Baltimore. AFP

Íslendingurinn sem handtekinn var á flugvelli í Baltimore er ekki á sakaskrá hérlendis. Hann á talsvert safn skotvopna sem fannst við húsleit hjá manninum sem býr á höfuðborgarsvæðinu.

Farið var í húsleit eftir ábendingu lögreglu í Bandaríkjunum. 

Þetta kemur fram samtali Þóris Ingvarssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns á hjá lögreglunni höfuðborgarsvæðinu, við mbl.is.

Var undir sérstöku eftirliti 

Lögreglan fann bæði skráð og óskráð vopn í húsi mannsins. Þórir segir að lögregla hafi fengið ábendingu um manninn frá lögreglu í Bandaríkjunum. Í framhaldinu hafi sérstakt eftirlit verið með manninum í ljósi þeirra upplýsinga.

„Þetta voru bæði óskráð vopn og óskráðir íhlutir. Óskráðir íhlutir eru til dæmis hljóðdeyfar. Svo eru líka vopn sem talin eru skráð en eru ekki skráð á þennan einstakling. Það getur átt sér eðlilegar skýringar og mun koma í ljós við rannsóknina,“ segir Þórir.

Fram kemur í tilkynningu frá lögreglu að í farangri mannsins hafi fundist skotvopn íhlutir og skotfæri. Þórir segir lögreglu á Íslandi ekki hafa frekari upplýsingar um málið sem er alfarið í höndum lögreglu í Bandaríkjunum. Eins fær lögregla í Bandaríkjunum engar upplýsingar um húsleitina á Íslandi þar sem um aðskilin mál er að ræða.

Engin óskastaða 

Ljóst er að viðurlög geta verið hörð verði maðurinn fundinn sekur um ólöglegan útflutning skotvopna. „Mig grunar að flestir sem hafa kynnt sér bandarískt réttarfar viti að það sé engin óskastaða að vera í steininum þar,“ segir Þórir.

„Vopnasmygl er víða um heim lagt að jöfnu við skipulagða brota- eða hryðjuverkastarfsemi og viðurlög við slíku því jafnan mjög ströng,“ segir m.a. í tilkynningu lögreglu. 

Þórir segir að til að flytja vopn frá Bandaríkjunum þurfi útflutningsheimildir. Samhliða þar innflutningsleyfi fyrir skotvopn ef flytja á þau til Íslands og það hafi ekki verið til staðar.

Tengist ekki starfi mannsins 

Að sögn Þóris tengist starf mannsins ekki vopnaeign á neinn hátt.
„Ég held að í þessu tilfelli sé ekki um að ræða byssusmið eða eitthvað slíkt,“ segir Þórir.

Hinn handtekni maður á talsvert skotvopnabúr og hefur aukinn skotvopnaréttindi sem safnari. Þórir segir að varsla vopna á heimili hans hafi verið í lagi.  

„Það leikur enginn grunur á skipulagðri glæpastarfsemi eða slíku,“ segir Þórir.  

Hann segir hundruð manna hafa aukin skotvopnaréttindi á Íslandi. Þá segir hann þennan hóp sæta auknu eftirliti lögreglu.

„Þetta eru réttindi sem tekur mörg ár að öðlast og okkar reynsla er sú að þessi hópur sé til fyrirmyndar,“ segir Þórir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert