Hjón og sambúðarfólk 18% umsækjenda

Reykjavík.
Reykjavík. mbl.is/Sigurður Bogi

Einstaklingum sem leita aðstoðar umboðsmanns skuldara (UMS) vegna fjárhagsvanda fer fjölgandi. Þá er aukinn þungi í símaráðgjöf og erindum sem berast frá einstaklingum.

„Það er ljóst að efnahagsástandið er farið að bitna á fólki í samfélaginu og samhliða almennri aukningu á umsóknum sjáum við fjölgun umsækjenda í hópum á borð við hjón og sambúðarfólk,“ segir Ásta Sigrún Helgadóttir, umboðsmaður skuldara, í tilkynningu.

Á síðustu árum hafa flestir umsækjendur verið einstaklingar sem búa einir. Það sem af er þessu ári eru þeir sem búa einir áfram stærsti hópur umsækjenda en fjölgun er í hópi hjóna og sambúðarfólks þriðja árið í röð. Árið 2022 voru hjón og sambúðarfólk 4% umsækjenda, 9% árið 2023 en eru nú 18%.

Þegar litið er til búsetu eru flestir þeirra sem leita aðstoðar á leigumarkaði, eða 60% á árinu 2023 og 66% það sem af er þessu ári.

Öryrkjar hafa verið stærsti hópur umsækjenda ef litið er til atvinnustöðu og voru þeir 37% allra umsækjenda á árinu 2023, en um 34% umsækjenda það sem af er þessu ári.

Umsækjendum í atvinnu fjölgar töluvert og eru þeir nú stærsti hópur umsækjenda ef litið er til atvinnustöðu, eða 45%. Til samanburðar voru einstaklingar í atvinnu 34% umsækjenda árið 2023 og 35% árið 2022. Atvinnulausum umsækjendum fækkar úr 25% árið 2023 í 16% það sem af er árinu 2024.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert