„Rennblaut tuska í andlitið á kjarasamningunum“

Inga Sæland segir ákvörðun peningastefnunefndar, um að halda stýrivöxtum óbreyttum, …
Inga Sæland segir ákvörðun peningastefnunefndar, um að halda stýrivöxtum óbreyttum, einkennast af hroka. mbl.is/Eyþór

Ákvörðun peningastefnunefndar um að halda stýrivöxtum óbreyttum í 9,25% er rennblaut tuska í andlitið á nýgerðum kjarasamningum.

Þetta segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, í samtali við mbl.is.

„Mér finnst þetta einkennast af hinu mesta þrákelkni og ótrúlegur hroki. Mér finnst þetta bara vera rennblaut tuska í andlitið á kjarasamningunum okkar – nýgerðum kjarasamningum – sem allir hafa byggt á hans hugmyndafræði [Seðlabankans] um að ná niður vöxtum og verðbólgu,“ segir Inga.

Nefndin hefði getað lækkað vexti

Hún segir að peningastefnunefndin hefði vel getað lækkað vexti, þó það væri ekki um nema 0,1-0,25%.

„Það hefði bara verið smá vottur um það að hann [Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri] væri í rauninni að virða þau verk sem hafa verið unnin til að koma til móts við þá stefnu sem peningastefnunefnd hefur talið vera nauðsynlega í baráttu gegn verðbólgu og um leið ná niður vöxtum,“ segir Inga.

Hún segir Ásgeir vita það mæta vel að greiðsluvandi heimilanna sé að stökkbreytast um þessar mundir.

„Hann veit það mætavel að snjóhengjan er að falla núna þúsundir heimila,“ segir Inga.

Gefur mögulega tilefni til að skoða orð Ragnars

Ragn­ar Þór Ing­ólfs­son, formaður VR, sagði fyrr í dag í samtali við mbl.is að Alþingi ætti að end­ur­skoða hlut­verk seðlabank­ans og sjálf­stæði hans.

Spurð hvort að hún eða Flokkur fólksins hafi tekið afstöðu til þess hvort að endurskoða þurfi hlutverk Seðlabankans og sjálfstæði hans segir Inga að það hafi ekki verið íhugað sérstaklega. Þó sé mögulega tilefni til þess í ljósi ákvörðunar peningastefnunefndar í morgun.

„Þar sem hann [Ásgeir] virðist ekki ætla sýna neinn lit í að minnsta kosti sýna velþóknun að einhverju leyti á þeim kjarasamningum og þeirri baráttu sem er búið að leggja í þá, að hann skuli sýna smá auðmýkt og virðingarvott gagnvart því - já þá finnst mér kannski ástæða til þess að fara skoða hversu máttlaus við erum gagnvart einræðinu á Svörtuloftum [Húsnæði Seðlabankans],“ segir Inga.

Þannig þú værir til í að endurskoða sjálfstæði Seðlabankans?

„Ég sagði það ekki, nei. Ég sagði að þetta gæfi tilefni til þess að skoða það sem Ragnar Þór var að nefna. Ekki með tilliti til þess að ráðast í einhverjar slíkar aðgerðir, heldur að sjá í rauninni hvað við getum gert,“ segir Inga.

Spyr hvort að ríkisstjórnin þurfi ekki að taka ábyrgð

Hún segir að þróunin hafi verið þannig á íslandi að það sé ávallt verið að draga úr vægi stjórnmálanna við ákvarðanatöku.

„Við erum náttúrulega viðurkennd sem ein spilltasta þjóð í Evrópu, þó jafnvel víðar væri leitað. Pólitíkin hér hefur allt einkennst af – eins og þú veist – frændhygli og einkavinavæðingu.

Þess vegna hefur þessi þróun verið að reyna gera hlutina meira sjálfstæða og hafa meiri armslengd frá pólitíkinni. En þegar þetta er svona þá er jú orðin spurning um það hvort að ríkisstjórnin verði ekki sjálf að taka ábyrgðina í svona stórum málum eins og þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert