6.000 salernisferðir á dag

Í Gamla sáttmála, sem Íslendingar gerðu við Hákon Noregskonung árið …
Í Gamla sáttmála, sem Íslendingar gerðu við Hákon Noregskonung árið 1262, var þess meðal annars krafist að sex skip gengju forfallalaust til landsins ár hvert. Nú koma sex skemmtiferðaskip stundum einn og sama daginn til Íslands þótt ekki sé í krafti konungssáttmála. Umhverfisstofnun blés til málþings um þetta á Ísafirði. mbl.is/Árni Sæberg

„Við erum oft að velta fyrir okkur upplifun á ferðamannastöðum og kannski erum við bara að velta því fyrir okkur hvernig það væri að vera ein í heiminum, eins og sumir vilji vera þegar þeir eru að ferðast.“

Með þessum orðum hóf Einar Á. E. Sæmundsen, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, erindi sitt á málþingi Umhverfisstofnunar um áhrif aukinnar umferðar skemmtiferðaskipa sem haldið var á Ísafirði í gærmorgun.

Benti Einar á að þjóðgarðurinn væri fyrsti viðkomustaður þeirra ferðamanna sem færu gullna hringinn svokallaða um kunnar perlur íslenskrar náttúru og væri í raun erfitt að skjóta á nákvæma tölu gesta sem starfsfólk Þingvallaþjóðgarðs reyndi þó og lagði Einar fram glæru með tölfræði ársins 2022 sem sýndi mesta aðsókn í ágústmánuði, rúmlega 1,6 milljónir gesta. Hve hátt hlutfall þess fjölda kæmi frá skemmtiferðaskipum væri örðugt að áætla.

„Lyngið á Lögbergi helga/blánar af berjum hvert ár,“ orti Jónas …
„Lyngið á Lögbergi helga/blánar af berjum hvert ár,“ orti Jónas Hallgrímsson. Í kvæði hans voru berin börnum og hröfnum að leik en nú eru það ferðamenn sem helst sækja Lögberg hið helga. mbl.is/Hari

350 skemmtiferðaskip á ári

Nú orðið væru skipakomur svo tíðar að mörg skemmtiferðaskip kæmu til Reykjavíkur samdægurs suma dagana yfir sumartímann, það sumar sem nú færi í hönd sagði Einar til dæmis gert ráð fyrir allt að sex skip sæktu landið heim einn og sama daginn.

Bar hann heimsóknatíðnina saman við Malasíu þar sem hann átti námsleyfi í febrúar og kynnti sér ferðaþjónustumál þar í landi. Kvað hann um 350 skemmtiferðaskip heimsækja Malasíu ár hvert en þar deildust skipakomur líka yfir allt árið – ekki bara sumarið.

Einar Á. E. Sæmundsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, ræddi helstu áskoranir …
Einar Á. E. Sæmundsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, ræddi helstu áskoranir starfsfólks þar í tengslum við umferð ferðamanna. mbl.is/Sigurður Bogi

„Segja má að ferðamenn sem koma til okkar séu að stíga fæti á íslenska jörð í fyrsta skipti og salernisferð er oft fyrsta hugsunin eftir 50 mínútna rútuferð frá Reykjavík,“ sagði Einar og ræddi þá miklu áskorun sem salernismál, og ekki síst meðfylgjandi skólp, eru starfsfólki þjóðgarðsins. Salernisferðir þar væru 6.000 á dag þegar mest léti. Sagði Einar nýtingu salernanna í raun stóran þátt í uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu.

Aka með allt skólp til Reykjavíkur

Þjóðgarðurinn er á vatnasviði Þingvallavatns sem sérstök lög gilda um, þar á meðal um fráveitu. Einar sagði starfsfólk þjóðgarðsins hafa verið í góðu sambandi við sveitarfélagið, sem hér er Bláskógabyggð, og Umhverfisstofnun um lausnir á fráveitumálum sem væru gríðarlega þung í vöfum.

„Við höfum undanfarin ár verið að keyra allt skólp til Reykjavíkur,“ sagði þjóðgarðsvörðurinn og benti á að þar væri líklega kominn sá álagsþáttur sem tengdist skemmtaferðaskipunum einna beinast.

Stjórnendur þjóðgarðsins hefðu leyft sér að ráða fleira fólk til að stýra umferð á svæðinu og yrðu 18 til 20 manns við þau verkefni í sumar auk þess sem sjúkraflutningamaður væri ávallt á svæðinu og starfsfólkið gengist undir skyndihjálparnámskeið, öryggismál væru ofarlega á forgangslistanum.

Þingvellir í vetrarbúningi. Ásókn ferðamanna er mest yfir sumartímann, allt …
Þingvellir í vetrarbúningi. Ásókn ferðamanna er mest yfir sumartímann, allt að 1,6 milljónir á mánuði. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ekki megi þó gleyma álaginu á náttúru svæðisins sem reynt væri eftir föngum að takmarka, svo sem með því að girða allar gönguleiðir af, það væri einfaldlega hluti af innviðauppbyggingu á svæðinu.

„Við erum öll að hugsa það sama, það er enginn nákvæmur kafli í einhverri kennslubók um þetta burðarþol [...] Okkar markmið er að reyna að búa til deiliskipulag og nýta innri samgöngur á okkar vegum,“ sagði Einar, þetta varðaði ekki bara skemmtiferðaskip og farþega með þeim þótt þeir væru vissulega gríðarlegir álagsvaldar.

„Þetta er kannski draumurinn okkar, að við séum alltaf alein, en raunveruleikinn er annar í heimi ferðaþjónustunnar,“ sagði Einar áður en hann bauð upp á spurningar málþingsgesta.

Náttúran aðalaðdráttaraflið

Guðný Vala Þorsteinsdóttir, verkefnastjóri hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, ræddi um náttúruvernd ferðamannasvæða og vöktun náttúruverndarsvæða sem sem væri langtímaverkefni sem stofnunin hefði ýtt úr vör árið 2019 en það er umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið sem fjármagnar verkefnið.

„Aðalaðdráttaraflið er náttúran og við þurfum að geta verndað þessar náttúruminjar svo við getum notið þeirra um ókomna tíð,“ sagði Guðný Vala. Vöktunarverkefnið væri það fyrsta samhæfða í náttúru Íslands og væri litið á það sem heildstæða vöktun sem gæti sagt til um hvaða breytingar eigi sér stað og af völdum hvers.

„Verkefnið kristallast í hlutverkinu, draumurinn er að vöktun náttúruverndarsvæða sé fyrsta skrefið í heildstæðri vöktun. Við vinnum þetta í samstarfi við náttúrustofur og viljum auka samstarfið við þjóðgarðana,“ sagði Guðný Vala og lagði áherslu á gott samtal við alla hlutaðeigandi.

Ísland laðar til sín ferðamenn eins og ljós dregur að …
Ísland laðar til sín ferðamenn eins og ljós dregur að sér flugur en að mörgu er að hyggja, meðal annars þolmörkum íslenskrar náttúru. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hlutverk Náttúrufræðistofnunar í verkefninu væri að sjá um allt utanumhald, en til þess hefði stofnunin meðal annars byggt upp miðlægan gagnagrunn sem öll gögn færu inn í og væru þar skráð á sama hátt. Vöktunin sjálf færi fram hjá náttúrustofum, hverri í sínum landshluta, og væri þar einkar mikilvægt að staðarþekkingin væri fyrir hendi og að allir beittu sömu aðferðum við athuganir og eftirlit.

Fólk fer þangað sem það ætlar

Þungur ferðamannastraumur sem fylgdi skemmtiferðaskipum væri vaktaður oft og reglulega með ljósmyndun, svo sem drónamyndatöku og svokallaðri endurtekinni ljósmyndun en þar er um að ræða myndir teknar á sama stað á mismunandi tímum.

„Þetta snýst um náttúru svæðisins og innviðina [...] Okkar vöktun er byggð á beinum mælingum á náttúrufarsþáttum, svo sem gróðri og dýralífi,“ sagði Guðný Vala og kvað meiri áherslu lagða á þessa þætti en sjálfa innviðina. „Ef stýring er ekki í lagi fer fólk þangað sem það ætlar að fara og notar þá ekki endilega göngustíga,“ benti hún á auk þess sem plöntur og dýr brygðust mismunandi við ágangi fólks.

„Í raun erum við bara á fjórða árinu í vöktun og með mörg svæði sem eru ekki í árlegri vöktun, við erum ekki búin að slíta barnsskónum enn þá,“ sagði Guðný Vala Þorsteinsdóttir um verkefni Náttúrufræðistofnunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert