Málið einstakt í sögu MAST

Sérgreinadýralæknir hjá MAST segir málið einstakt í sögu stofnunarinnar.
Sérgreinadýralæknir hjá MAST segir málið einstakt í sögu stofnunarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ákvörðun MAST um stöðva tímabundið þjálfun hesta fyrir kvikmyndaverkefni hér á landi var tekin út frá myndbandi af illri meðferð hestanna og frávikum sem fundust eftir heimsókn starfsmanns á vegum MAST.

Sigríður Björnsdóttir, sérgreinadýralæknir sem hefur umsjón með heilbrigði og velferð hrossa hjá MAST, segir málið einstakt í sögu stofnunarinnar.

Stöðvuðu þjálfunina í kjölfar myndbandsins

Líkt og greint hefur verið frá stöðvaði MAST tímabundið þjálfun hesta fyrir þáttaröðina King and Conqueror sem Baltasar Kormákur framleiðir fyrir BBC og CBS.

„Starfsmaður Matvælastofnunar fór þangað eftir að okkur barst ábending, en eftir þá heimsókn barst okkur myndbandið og þá var ákveðið að stöðva starfsemina, þannig að við gætum rannsakað þetta nánar,“ segir Sigríður. Ákvörðunin um að stöðva starfsemina hafi verið tekin út frá myndbandinu.

Hún segir þó að frávik hafi fundist við skoðunina og með myndbandið til hliðsjónar hafi ákvörðunin verið tekin.

„Að samanteknu töldum við svo að þetta myndi ekki standast lög og reglur um velferð dýra.“

Málið á frumstigi hjá MAST

Eru viðurlög við þessu eða verður þetta kært til lögreglu?

„Það eru viðurlög við þessu, annað hvort getur MAST klárað málið eða kært til lögreglu,“ segir Sigríður og bætir við að málið sé enn á frumstigi og að stofnunin hafi enga ákvörðun tekið enn sem komið er. 

„Við þurfum bara að skoða málin.“

Hafið þið orðið vör við eitthvað af þessu tagi áður?

„Þetta er alveg einstakt mál. Þarna var hestinum ætlað að fara í verkefni sem er ólíkt því sem er hefð fyrir hér á landi. Þannig þetta á sér ekki hliðstæðu hérna í íslenskum veruleika.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert