„Var lengi vel eini vinur ferðaþjónustunnar“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hafnar því að hann hafi talað íslenska ferðaþjónustu niður. Þvert á móti segist hann á tímabili hafa verið eini vinur greinarinnar. Segir hann vöxt hennar áskorun.

Þetta kemur fram í viðtali við Ásgeir í Spursmálum en þar er honum bent á að forsvarsmönnum ferðaþjónustunnar hafi lagst þungt orð til hans á ársfundi Samtaka ferðaþjónustunnar í liðinni viku.

Skapar 600 milljarða gjaldeyristekjur

Þú hefur talað undir nokkuð neikvæðum formerkjum um ferðaþjónustuna, að þetta séu láglaunastörf og að það gangi ekki að keyra hagvöxt áfram á þeim nótum. Ferðaþjónustan skilaði 600 milljörðum í gjaldeyristekjur á síðasta ári. Það hlýtur að vera ein af grunnstoðum velmegunar á Íslandi í dag. Erum við ekki full neikvæðir gagnvart þessari grein sem leggur þetta drjúgan skerf inn í þjóðarkökuna?

„Ja, ég er ekki sammála því að ég hafi talað neikvætt til ferðaþjónustunnar. Ég var lengi vel eini vinur ferðaþjónustunnar á þessu landi. Þegar ég var að tala um þetta var ég ekki endilega að tala um ferðaþjónustuna yfir höfuð. Það er alveg ljóst að ferðaþjónustan er ein mikilvægasta útflutningsgrein landsins. Við sáum nú hvað gerðist þegar hún hvarf í kóvídinu.

Þannig að ég er ekki á móti ferðaþjónustunni. Hins vegar, þegar ég talaði um að það væri ekki góð strategía að reka hagvöxt með að flytja inn láglaunastörf þá var ég bara að tala almennt séð. Það eru náttúrulega miklu fleiri greinar sem eru að því og það er það sem skapar þetta mikla álag.“

Ásgeir Jónsson er gestur Spursmála og ræðir þar stöðuna í …
Ásgeir Jónsson er gestur Spursmála og ræðir þar stöðuna í hagkerfinu, vaxtastigið í landinu og margt fleira. mbl.is/María Matthíasdóttir

Þrátt fyrir þetta segist seðlabankastjóri vilja greininni allt hið besta.

„En ég vil ferðaþjónustunni allt hið besta, þetta er grein sem að mörgu leyti sem hentar okkur mjög vel fyrir okkur því allt í einu hefur þjónustan hjá okkur orðið að útflutningi. Hins vegar má alltaf velta fyrir sér hvernig við ætlum að gera þetta og hversu mörgum ferðamönnum við ætlum að taka við.

Og ég veit að það hefur orðið mikil hreyfing í að fara í virðismeiri þjónustu en eins og ég segi það er kannski frekar að ég vitni í mann sem við þekkjum væntanlega báðir vel, sem er Marteinn Lúther, hér stend ég og get ekki annað. Með 20% hagvöxt og við erum að verða 400 þúsund með kostnaðarþrýsting á öllum sviðum.

Þá verðum við auðvitað að bregðast við því með því að hækka vexti. Reyna að halda aftur af þessu en auðvitað væri óskandi að það væri hægt að vinna einhvern veginn betur úr þessu þannig að þetta yrði ekki svona hraður vöxtur.“

Áföll í útflutningsgreinum valda áhyggjum

En þið hafið áhyggjur af hinu gagnstæða. Þegar maður les nýjustu útgáfu Fjármálastöðugleika, ritsins ykkar sem kom út nýverið, þar gerið þið að talsverðu umræðuefni stöðu flugfélaganna sem er sannast sagna bágborin í dag, gengi þetta mjög lágt í kauphöll og annað þeirra að sækja sér fé á markað, bókanastaðan ekki góð og ferðaþjónustan sjálf talar sjálf um að það séu mikla blikur á lofti. Hafið þið engar áhyggjur af því að það komi högg á hagkerfið því að hingað drífi ekki fólk vegna, ja dýrtíð, háu gengi krónunnar og öðru slíku?

„Jú. Almennt séð, þá er það gömul saga og ný á Íslandi að áföll í útflutningsgreinum valda okkur áhyggjum.“

Heldur þú að það sé yfirvofandi áfall?

„Nei, ég er ekki endilega viss um það. Nú er það þannig að það eru mörg flugfélög sem flytja fólk til landsins. Ég held að ég fari rétt með að Play sé með í kringum 10% markaðshlutdeild á ferðum fólks til landsins. Ég held að erlend félög séu komin með mjög mikið. En það er kannski vöxturinn sem er vandamálið, hvað hann gerist hratt.

En svo ég segi bara alveg skýrt. Ferðaþjónustan og sjávarútvegurinn þetta eru okkar helstu greinar í útflutningi og áliðnaðurinn líka. Auðvitað skiptir það máli að þær gangi vel en á sama tíma er mjög erfitt að þær vaxi mjög hratt. Og það þýðir af hverju vextirnir hjá okkur eru háir.“

Erfitt að hafa stjórn á sumu

Vandi fylgir vegsemd hverri.

„Já. Við erum lítið og opið hagkerfi. Það gerir það að verkum að við erum háð því sem gerist í öðrum löndum. Ef það er mikil ferðagleði í öðrum löndum og það er erfitt að hafa stjórn á því.

En ég er hins vegar mjög ánægður yfir því að aðhaldið sem við höfum veitt hefur orðið til þess að útflutningur hefur verið að aukast, við höfum séð viðskiptajöfnuð vera að batna, við höfum séð þensluna eða þjóðarútgjöldin vera að minnka. Þannig að þetta er að virka með réttum hætti.“

Viðtalið við Ásgeir Jónsson má sjá í heild sinni hér fyrir neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka