Baldur með mesta fylgið

Baldur hlýtur mestan stuðning landsmanna ef marka má nýja könnun …
Baldur hlýtur mestan stuðning landsmanna ef marka má nýja könnun frá Prósent. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Baldur Þórhallsson forsetaframbjóðandi hlýtur mest fylgi landsmanna ef marka má nýja netkönnun Prósents. Baldur er 22 prósentustigum á undan Höllu Tómasdóttur sem vermir annað sætið.

Könnunin, sem var framkvæmd frá 20. til 27. mars, er byggð á svörum 1.950 einstaklinga 18 ára og eldri. 

Hátt hlutfall óákveðna

Þátttakendur í könnuninni voru spurðir hvaða frambjóðanda þeir myndu vilja sjá sem næsta forseta Íslands. 

Flestir sögðust vilja sjá Baldur sem næsta forseta, eða 37%.

15% sögðust vilja sjá Höllu sem næsta forseta, 5% vildu sjá Arnar Þór Jónsson, 4% Ásdísi Rán Gunnarsdóttur, 2% Ástþór Magnússon Wium, 1% Agnieszka Sokolowska og 1% Sigríði Hrund Pétursdóttir. 

Aðrir frambjóðendur hlutu samanlagt 2%. 

Athygli vekur að 34% svarenda sögðust ekki vita hvaða frambjóðenda þeir myndu vilja sjá á Bessastöðum. 

Halla Tómasdóttir vermir annað sæti listans í könnuninni.
Halla Tómasdóttir vermir annað sæti listans í könnuninni. mbl.is/Óttar

Baldur með meginþorra þeirra ákveðnu

Séu óákveðnir svarendur teknir úr menginu sögðust 56% þeirra ákveðnu vilja sjá Baldur sem næsta forseta og 23% vildu sjá Höllu Tómasdóttur í embættinu. 

8% vildu sjá Arnar Þór á Bessastöðum, 5% Ásdísi Rán, 3% Ástþór Magnússon, 1% Agnieszka Sokolowska og 1% Sigríði Hrund. 

Aðrir frambjóðendur hlutu 3%. 

Aldurmengi Baldurs yngra en hjá Höllu

Sé tekið mið af aldri svarenda þá sækir Baldur mest sitt fylgi til 25-64 ára, en Halla Tómasdóttir er með mest fylgi hjá 45 ára og eldri.

Þá voru flestir þeirra óákveðnu á aldurbilinu 18-24 ára eða 55%. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert