Bilun í tölvukerfi Arion banka veldur óþægindum

Bilunin hefur varað síðan á mánudag.
Bilunin hefur varað síðan á mánudag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vegna rekstrartruflana hefur verið skert virkni í appi og netbanka Arion banka frá því á mánudag. Búið er að greina vandann og standa vonir til að virknin verði komin í lag á morgun. 

Ekki hefur verið hægt að sækja um lán í appi eða netbanka, stofna kredit- eða debetkort eða innlánsreikning hjá Arion banka síðan á mánudag vegna umræddra rekstrartruflana.

Haraldur Guðni Eiðsson, forstöðumaður samskiptasviðs og sjálfbærni hjá Arion banka, segir að bilun hafi komið upp í kerfinu, ekki sé um tölvuárás að ræða.

Í tilkynningu frá Arion banka eru viðskiptavinir hvattir til að koma í útibú bankans eða hringja í þjónustuver til að fá aðstoð við þá þjónustu sem ekki er hægt að sækja í appi eða netbanka. Að auki segir að útborgun samþykktra lána muni tefjast fram yfir páskahelgina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert