Gervigreindin umbyltir íslenskum veðurspám

Að vefnum blika.is standa feðgarnir Sveinn Gauti og Einar Sveinbjörnsson, …
Að vefnum blika.is standa feðgarnir Sveinn Gauti og Einar Sveinbjörnsson, en þeir hafa þróað nýtt veðurlíkan sem byggir á gervigreindartækni. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Veðurspárvefur Bliku hefur tekið í notkun nýtt veðurlíkan sem byggir á gervigreindartækni úr smiðju Veðurvaktarinnar ehf. sem heldur úti vef Bliku.

Sveinn Gauti Einarsson, verkfræðingur hjá Bliku, segir að líkanið muni þróast með tímanum, en athygli vekur að það virðist strax sýna nákvæmari spár en líkön Veðurstofunnar og Yr, veðurspárlíkani frá Noregi.

Líkanið mun þróast

„Við útbjuggum nýtt gervigreindarlíkan og tengdum saman veðurathuganir við veðurspár,“ segir Sveinn og bætir við að gervigreindin sé byggð á gögnum sem nái allt að tíu ár aftur í tímann. 

Hann segir að með því að taka saman veðurathuganir og veðurspár sé þeim kleift að leiðrétta kerfisbundnar skekkjur í öðrum líkönum. 

„Við tókum þetta í notkun bara í morgun [gærmorgun] en höfum verið að prófa þetta undanfarna mánuði og sáum strax í hvað stefndi.“

Þá segir hann að líkanið muni þróast til hins betra með tíð og tíma. 

Munu gera grein fyrir áreiðanleika spárinnar

„Við sjáum strax að þetta mun verða enn þá betra mun fljótlega,“ segir Sveinn um þróun líkansins. 

Hann segir að stefnt sé á að bæta mælikvarða við líkanið fyrir sumarið sem mun segja til um áreiðanleika spárinnar. 

„Planið er að við getum gefið spánni einkunn.“

Mun það koma vel að notum þegar spáð er fimm eða sjö daga fram í tímann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert