„Þetta hefur tilfinningalegt gildi“

Hörður Guðmundsson er stofnandi Ernis.
Hörður Guðmundsson er stofnandi Ernis. Samsett mynd

Hörður Guðmundsson, stofnandi Ernis, segir flugfélagið hafa tilfinningalegt gildi fyrir hann og honum þyki leitt að sjá að það stefni í að flugrekstur félagsins verði lagður niður. Hins vegar fari nýir menn með stjórnartaumana og lítið við því að segja ef menn vilja fara með félagið í annan farveg en verið hefur.

Flugfélagið Ernir var stofnað árið 1970. Hörður seldi meirihlutaeign sína í félaginu í upphafi síðasta árs en fjölskyldan á enn um 25% hlut í því.

Fram kom í máli Einars Bjarka Leifssonar, fjármálastjóra félagsins, að allar líkur væru á því að flugrekstarleyfi Ernis yrði skilað.

Kemur á óvart 

„Við vorum búin að reka þetta í 53 ár á sömu kennitölunni og þetta var elsta starfandi félag á Íslandi ef miðað er við kennitöluna,“ segir Hörður.

Hann segir að það komi á óvart að áform séu uppi um að skila inn flugrekstarleyfinu en eins og fram kom á mbl.is skuldar félagið lífeyrissjóði og skattinum háar fjárhæðir. „Þetta hefur tilfinningalegt gildi,“ segir Hörður en Ernir var fjölskyldufyrirtæki. 

„Við áttum frekar von á því að nýir stjórnendur myndu leggja áherslu á að koma rekstrinum í gott horf og bretta upp ermar. En það eru nýir menn og ný sjónarmið sem ráða för og lítið annað um það að segja,“ segir Hörður.  

Sýnir þessu skilning 

Hann segir að hann sé ekki fyrsti maðurinn til að vera ósáttur við eftirmenn sína.

„Maður verður að sýna þessu ákveðinn skilning þó þetta sé ekki í takti við það sem maður vonaðist til. Þetta var orðinn nokkuð erfiður rekstur sem á ekki síst rætur sínar að rekja til Covid tímans. Ernir var með of mikinn mannskap í Covid og ef við hefðum sagt fólki upp þá hefðum við þurft að borga fólki full laun í einhvern tíma en við héldum starfsfólki út af hlutabótaleiðinni," greinir hann frá.

„Þetta gerði það að verkum að við komumst í verulega skuldir hvað varðar launatengd gjöld og annað slíkt. En það breytir því ekki að við sem vorum í þessu töldum að það þyrfti að blása meira lífi í félagið frekar en að taka það niður og selja eignir til að koma sér út úr skuldum,“ segir Hörður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert