Hringvegurinn víða lokaður þar til á morgun

Mikil úrkoma er á Norðurlandi og skyggni lítið.
Mikil úrkoma er á Norðurlandi og skyggni lítið. Ljósmynd/Landsbjörg

Lokað er um Öxnadalsheiði, Ljósavatnsskarð, Vatnsskarð, Ólafsfjarðarmúla og Siglufjarðarveg vegna mikillar úrkomu og lítils skyggnis í ljósi skafrennings og hríðarveðurs. Þá er enn lokað um hringveginn í Möðrudalsöræfum auk þess sem Fjarðarheiðinn hefur verið lokuð síðan í gær. 

Veðrið er skollið á Norðurland með þeim afleiðingum að víða er lokað eða ófært. Mikil úrkoma er á svæðinu, gengur á með hríðarveðri og skafrenning og skyggni því lítið. Þetta segir Elva Brá, þjón­ustu­full­trúi í um­ferðaþjón­ustu hjá Vega­gerðinni, spurð út í færð og veður á vegum landsins. 

Staðan á landinu klukkan 14:30.
Staðan á landinu klukkan 14:30. Kort/Vegagerðin

Ekki útlit fyrir að vegirnir verði opnaðir í dag

Snjóflóð féll yfir hringveg eitt við Ljósavatnskarð í dag og er vegurinn því lokaður sem stendur. Þá er lítið skyggni á Vatnsskarði sem hefur orðið til þess að löng bílaröð situr þar föst og haggast lítið að sögn Elvu. Hún segir unnið að því að koma bílum niður úr skarðinu. Þá er jafnframt lokað um Þverárfjall.

Spurð hvort útlit sé fyrir að Öxnadalsheiði verði opnuð í dag svarar Elva því að miðað við veðurspá sé ekki útlit fyrir að hún verði opnuð fyrr en á morgun.

Hvað Ljósavatnsskarð, Vatnsskarð, Ólafsfjarðarmúla og Siglufjarðarveg varðar þá telur Elva jafnframt ólíklegt að þær leiðir verði opnaðar í dag. Það sé þó vel fylgst með veðri og staðan endurmetin reglulega. 

Héldu opnu um djúpið yfir Steingrímsfjarðarheiði og Ennisháls

Víðar en á Norðurlandi hefur verið ófært, vegir lokaðir og erfitt að komast um. Í gær var til að mynda ófært um Steingrímsfjarðarheiði og Þröskulda sem varð til þess að færri komust á rokkhátíð alþýðunnar, Aldrei fór ég suður, en vildu. 

Spurð út í stöðuna á Vestfjörðum í dag svarar Elva að í dag hafi vegirnir verið þjónustaðir þannig að vegfarendur kæmust um djúpið yfir Steingrímsfjarðarheiði og Ennisháls. Mokstri á Steingrímsfjarðarheiði sé þó hætt klukkan þrjú og klukkan fjögur á Ennishálsi.  

Lokað er um Dynjandisheiði og Bíldudalsveg. 

Þá var jafnframt lokað um hringveginn í Mývatns- og Möðrudalsöræfum í gær og eins og fram kom á mbl.is var ekki útlit fyrir að það verði mokað fyrr en í fyrsta lagi í fyrramálið.

Elva segir stöðuna ekki hafa breyst og bætir við að jafnframt sé búið að vera lokað um Fjarðarheiði síðan í gær og staðan þar verði einnig metin í fyrramálið. 

Við minnum á vef Vegagerðarinnar, umferdin.is þar sem má fylgjast með ástandi og lokunum vega á landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert