Stíf fundarhöld í Karphúsinu

Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari.
Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

BSRB og Læknafélag Íslands hafa fundað í húsakynnum ríkissáttasemjara í Karphúsinu í dag að sögn Ástráðar Haraldssonar ríkissáttasemjara.

Kjarasamningar BSRB og Læknafélags Íslands runnu út um mánaðamótin sem og hjá BHM. 19 aðildarfélög BSRB taka þátt í kjaraviðræðunum og telja félagsmenn um 24 þúsund en 18 þúsund félagsmenn eru í BHM.

„Við höfum verið að funda með opinberum starfsmönnum og læknum í dag og við munum halda þeim viðræðum áfram í vikunni,“ segir Ástráður við mbl.is. Hann segir að aðildarfélög innan BHM tengist sumum þeirra verkefna sem eru í gangi.

„Það á svolítið eftir að koma í ljós hvernig BHM vill koma að kjaraviðræðunum,“ segir Ástráður.

Viðræður við BSRB gengið ágætlega

Ástráður segir að viðræðurnar við BSRB hafi gengið ágætlega. Hann segir að verkefnið hafi verið komið vel á veg fyrir páska og í dag hafi þráðurinn verið tekinn upp að nýju.

Þá er enn ósamið við félagsmenn Kennarafélag Íslands sem telur um 10.500 félagsmenn. Samningar þeirra eru ekki lausir og það er mismunandi eftir aðildarfélögum hvenær samningarnir losna á þessu ári.

„Það er orðið tímabært að fara yfir samningamálin með Kennarasambandinu en við erum ekki alveg búin að fóta okkur á því hver sú nálgun verður,“ segir Ástráður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert