Kæra á hendur Semu og Maríu „fabúleringar“

Einar hefur kært Maríu og Semu fyrir lögbrot í tengslum …
Einar hefur kært Maríu og Semu fyrir lögbrot í tengslum við fjáröflun þeirra fyrir palestínska dvalarleyfishafa. Samsett mynd/Árni Sæberg/Kristinn Magnússon/Aðsend

„Þetta eru náttúrulega bara nornaveiðar af hálfu lögmannsins,“ segir Gunnar Ingi Jóhannsson, lögfræðingur Maríu Lilju Ingveldardóttur Þrastardóttur Kemp, um kæru á hendur henni og Semu Erlu Serdaroglu. 

Blaðamaður hafði samband við Maríu Lilju sem vísaði á lögfræðing sinn varðandi kæruna.

María og Sema, sem staðið hafa fyrir fjáröflun til að koma palestínskum dvalarleyfishöfum yfir landamæri Gasa og Egyptalands, eru sakaðar um brot á lögum um mútur til erlendra opinberra starfsmanna, peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Kærandi hafi engar upplýsingar um meint brot

Í samtali við mbl.is staðfestir Gunnar Ingi Jóhannsson að kærandinn sé Einar Hálfdánarson, hæstaréttarlögmaður og faðir Diljár Mistar Einarsdóttur þingkonu Sjálfstæðisflokksins. Hann segir kæruna þó ekki byggða á lagalegri stoð.

Gunnar Ingi Jóhannsson.
Gunnar Ingi Jóhannsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Í kærunni er ekki vísað til neinna upplýsinga, atvika, gagna eða neitt slíkt. Þannig að hún ber það með sér að vera bara einhverjar fabúleringar,“ segir Gunnar Ingi.

Hann segir að í kærunni sé í raun óskað eftir því að lögreglan skoði hvort fjáröflunin hafi farið fram með réttmætum hætti án þess að kærandinn hafi nokkrar upplýsingar um að svo sé ekki. Slíkt sé ekki rétt ferli. 

Refsivert að gefa fólki rangar sakargiftir

Enn fremur sé það afar alvarlegt að setja slíkar ásakanir fram án rökstuðnings eða sannana fyrir máli sínu, enda sé það refsivert að gefa fólki rangar sakargiftir. 

„Þegar svona alvarlegar ásakanir eru settar fram í kæru til lögreglu þá er eins gott að menn séu nokkuð öruggir með að það sé rétt, því það er refsivert að fá annað fólk dæmt fyrir brot sem það hefur ekki framið,“ segir Gunnar Ingi. 

Kveðst hann telja að um sé að ræða kæru sem hafi það að markmiði að búa til frétt. Ekki sé það lögreglan sem hafi lekið kærunni í fjölmiðla heldur augljóslega kærandinn, en María frétti sjálf af kærunni í gegnum fjölmiðla. 

Kvittanir liggi fyrir 

Spurður hvort slíkur fókus hafi verið á góðgerðarsafnanir áður kveðst Gunnar Ingi ekki vita til þess. Hann bendir á að aðeins sé vísað í eitt lagaákvæði í kærunni en það ákvæði snúist um lögsögu, þ.e. að hægt sé að kæra fyrir brot framin erlendis. 

„Það er svo spurning um hvaða brot það eru. Það er ekkert mikið verið að fjalla um það í þessari kæru.“

Segir hann að væntanlega eigi það að vísa til meintra mútugreiðslna til erlendra embættismanna sem eigi að hafa átt sér stað í Egyptalandi en að kærunni fylgi hvorki rök né sannanir fyrir því.

„Það er engin leið að segja til um það að öðru leyti en að umbjóðandi minn hafnar því alfarið,“ segir Gunnar Ingi.

„Það liggur fyrir af hennar hálfu í hvað þessir fjármunir hafa farið. Það eru kvittanir fyrir því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert