„Ég hef sannarlega séð það svartara“

Halla tilkynnti um framboð sitt 17. mars.
Halla tilkynnti um framboð sitt 17. mars. mbl.is/Óttar

Halla Tómasdóttir forsetaframbjóðandi segir forsetaframboð Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra ekki slá sig út af laginu. Hún er spennt fyrir kosningabaráttunni fram undan og telur að fylgi sitt muni aukast. 

Eins og alþjóð veit tilkynnti Katrín um framboð sitt í fyrradag. 

Katrín verðugur meðframbjóðandi

Halla segir framboð Katrínar ekki hafa komið sér á óvart.

„Mér fannst það á Katrínu í dálítinn tíma að hún væri líkleg til þess að gefa kost á sér. Ég hef sagt frá upphafi að maður gefur ekki kost á sér út af því að  einhverjir aðrir gera það eða gera það ekki. Maður gefur kost á sér vegna þess að það er eitthvað sem að maður brennur fyrir að tala um og koma í verk,“ segir Halla og bætir við:

„Ég hef alltaf borið mikla virðingu fyrir henni. Hún er verðugur meðframbjóðandi.“ Þá sé gott fyrir kjósendur að fá valkosti.

Of snemmt að taka mark á könnunum

Sam­kvæmt könn­un Pró­sent, sem var fram­kvæmd frá 28. mars til 3. apríl, hefur Bald­ur Þór­halls­son, pró­fess­or í stjórn­mála­fræði, nokkuð for­skot á aðra sem hafa stofnað meðmæla­söfn­un fyr­ir for­setafram­boð eða verið orðaðir við fram­boðið. Könnunin var unn­in fyr­ir stuðnings­fólk Bald­urs og var framkvæmd áður en Jón Gn­arr leik­ari og Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra höfðu tilkynnt um framboð sín. 

27% þeirra sem svöruðu í könn­un­inni vilja Bald­ur sem næsta for­seta Íslands. Jón Gn­arr og Katrín hlutu bæði 17% fylgi meðal svar­enda. Halla Tóm­as­dótt­ir hlut 10% fylgi meðal svar­enda.

Spurð hvort umrædd könnun sé vonbrigði segir Halla:

„Ég hef sannarlega séð það svartara. Ég man mjög vel eftir því að 45 dögum fyrir kosningarnar þegar ég var síðast í framboði var ég með 1% fylgi. Eigum við ekki að segja að þetta sé tíu sinnu betra en það. Við erum varla byrjuð að heyra í frambjóðendum. Núna er sviðið bara að skýrast. Á meðan að nýir frambjóðendur eru stiga fram þá held ég að það sé eðlilegt að þeir eiga sviðið og sviðsljósið. Ég er bara róleg að hitta kjósendur og vinna mína vinnu. Ég hef fulla trú á því að þetta breytist með tímanum eins og það hefur áður gert. Ég held að það sé full snemmt í raun að taka mikið mark á könnunum svona snemma í ferlinu þegar að flekarnir í framboðinu séu enn að færast til.“

Spennt fyrir baráttunni

Halla dvaldi um páskana á Vestfjörðum og kynnti sig fyrir heimamönnum þar. Upp á síðkastið hefur hún haldið viðburði á höfuðborgarsvæðinu, t.d. í heimahúsum, þar sem hún hefur kynnt framboðið.

„Ég gef kjósendum einfaldlega kost á að kynnast mér mjög vel og spyrja mig að hverju sem er. Það hefur fallið vel í kramið.“

Þá mun Halla á næstunni opna kosningarmiðstöð sína, sem verður í Ármúla 13 í Reykjavík. Hún segist spennt fyrir baráttunni um Bessastaði.

„Þetta er ótrúlega gefandi og skemmtilegt að hitta fólk og eiga samtal um jafn mikilvægan hlut og framtíð þessarar þjóðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert