Flestir vilja sjá Baldur á Bessastöðum

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, hefur nokkuð forskot á aðra einstaklinga sem hafa stofnað meðmælasöfnun fyrir forsetaframboð eða verið orðaðir við framboðið samkvæmt nýrri könnun Prósent. 

Könnunin var framkvæmd frá 28. mars til 3. apríl og var unnin fyrir stuðningsfólk Baldurs. í henni var spurt: Hver af eftirfarandi myndir þú vilja að verði næsti forseti Íslands, óháð því hvort að einstaklingurinn hafi tilkynnt framboð sitt eða ekki?

Var því hugur svarenda kannaður til ýmissa forsetaefna, þar á meðal þeirra Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, Jóns Gnarr leikara, og Höllu Hrund Logadóttur orkumálastjóra, en ekkert þeirra hafði tilkynnt um framboð sitt þegar könnunin var gerð, og einungis Jón hefur lýst yfir framboði formlega að svo stöddu. 

Katrín og Jón Gnarr hnífjöfn 

27% þeirra sem svöruðu í könnuninni vilja að Baldur verði næsti forseti Íslands. Af þeim sem hafa tekið afstöðu eru 34% sem vilja Baldur á Bessastaði.  19% svarenda eru óvissir. 

Jón Gnarr leikari, sem tilkynnti framboð sitt í gærkvöldi, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra eru hnífjöfn í skoðanakönnuninni. Þau hljóta bæði 17% fylgi meðal svarenda. 

Baldur Þórhallsson er vinsælastur.
Baldur Þórhallsson er vinsælastur. Graf/Prósent

Halla Tómasdóttir forstjóri B Team er fjórða en 10% svarenda vilja sjá hana sem næsta forseta. 

Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri og Arnar Þór Jónsson lögmaður eru bæði með 4% fylgi í skoðanakönnuninni. Þá mældist Helga Erla Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, með 1%.

Jón Gnarr vinsælastur hjá yngri kjósendum

49% svarenda á aldrinum 18-24 ára vilja sjá Jón Gnarr sem næsta forseta Íslands. Vinsældir hans virðast þó dvína eftir því sem kjósendur eldast en 9% svarenda á aldrinum 55-64 ára vilja sjá hann í embættinu. 

Unga fólkið vill sjá Jón Gnarr á Bessastöðum.
Unga fólkið vill sjá Jón Gnarr á Bessastöðum. Graf/Prósent

Ekki er sömu sögu að segja um Katrínu. Af þeim sem vilja sjá hana sem næsta forseta eru flestir á aldrinum 65 ára og eldri en fæstir 35-44 ára. 

Baldur er vinsælastur hjá bæði konum og körlum. 39% kvenkyns svarenda vilja sjá hann sem forseta og 30% karla. Karlar virðast þó hrifnari af Katrínu og Jóni en þau eru bæði með 23% fylgi hjá körlum en 20% hjá konum. 

Konur virðast hrifnari af Baldri en karlar.
Konur virðast hrifnari af Baldri en karlar. Graf/Prósent

Katrín vinsæl hjá efnameira fólki

Af þeim svarendum sem eru með milljón krónur eða hærri einstaklingstekjur vilja 34% sjá Katrínu sem næsta forseta. Vinsældir hennar aukast eftir því sem svarendur hækka í tekjum. 

Katrín er vinsæl meðal þeirra sem eru með milljón eða …
Katrín er vinsæl meðal þeirra sem eru með milljón eða meira í einstaklingstekjur. Graf/Prósent

Þá eru Jón Gnarr og Baldur vinsælastir meðal þeirra sem eru með lægra en 400 þúsund krónur í einstaklingstekjur, hvor um sig með 30% fylgi. 

Úrtak könnunarinnar var 2500 einstaklingar og svarhlutfall var 52%, eða 1.307 manns. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert