Nýju fólki fylgi nýjar áherslur

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, verðandi matvælaráðherra.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, verðandi matvælaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og verðandi matvælaráðherra, segist líta svo á að gott verk hafi verið unnið undir forystu Svandísar Svavarsdóttur í ráðuneytinu en nýju fólki fylgi þó nýjar áherslur.

Bjarkey lagði leið sína á Bessastaði í kvöld þar sem ný ríkisstjórn tekur við og hún við keflinu af Svandísi sem verður innviðaráðherra.

Spurð hvernig tilfinningin sé að taka við embætti matvælaráðherra segir hún:

„Hún er mjög góð skal ég segja þér. Ég hlakka mikið til þess að takast á við þau verkefni sem framundan eru.“

Gott verk unnið undir forystu Svandísar

Munt þú koma með nýjar áherslur inn í ráðuneytið?

„Nýju fólki fylgja auðvitað einhverjar breyttar áherslur af eðli máls að skilja. Ég lít svo á að gott verk hafi verið unnið undir forystu Svandísar Svavarsdóttur og sannarlega held ég áfram með þau verk. En eins og ég segi, þá fylgja nýju fólki fylgja alltaf nýjar áherslur.“

End­ur­nýj­un á ör­orku­kerf­inu, orku­öfl­un og út­lend­inga­mál eru stór mál sem ríkisstjórnin hyggst taka fyrir í þinginu. Spurð hvort þau verði ríkisstjórninni til trafala næstu mánuðina segir hún:

„Það held ég ekki. Ég held að við vinnum að farsælli lausn á þessum málum sem við stöndum frammi fyrir. Mörg góð mál eru komin nú þegar inn í þingið og eru í vinnslu í nefndum. Mörg góð mál bíða fyrstu umræðu og ég held að við leggjum af stað sem eining inn í þetta.“

Vongóð um að ríkisstjórnin klári tímabilið

Ertu vongóð um að þessi ríkisstjórn klári kjörtímabilið?

„Það ætla ég rétt að vona.“

Þá að málefni sem hafa verið mikið í umræðunni í kringum forvera þinn, hvalveiðar. Það er búið að sækja um leyfi til þess að framlengja leyfi Hvals hf. til að veiða hval áfram. Er þetta eitthvað sem þú hyggst veita?

„Ég tek enga afstöðu til þess núna. Ég hyggst fara yfir það með ráðuneytisfólki, byrja á því að kynna mér málin og annað slíkt áður en ég tek ákvarðanir um það eða eitthvað annað.“

Bjarkey við komuna á Bessastaði í kvöld.
Bjarkey við komuna á Bessastaði í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert