Skólinn gjaldþrota en skuldar nemendum milljónir

Flugakademía Íslands, eða Iceland Aviation Academy, hefur verið tekin til …
Flugakademía Íslands, eða Iceland Aviation Academy, hefur verið tekin til gjaldþrotaskipta. Ljósmynd/Af heimasíðu Keilis.

Flugakademía Íslands skuldar enn nemendum milljónir króna fyrir óflogna flugtíma en nú er skólinn gjaldþrota.

Eins og fram kom á mbl.is í gær hefur Flugakademía Íslands, eða Iceland Aviation Academy, verið tekin til gjaldþrotaskipta.

Í september lokaði akademían eftir langvarandi rekstarvanda. Samanlagt tap félagsins síðustu fimm ár nam yfir 520 milljónum króna, en Morgunblaðið greindi frá því í haust. Eigið fé félagsins var neikvætt um rúmar 393 milljónir króna í lok ársins 2022.

Færð undir flugskóla Reykjavíkur

Flugakademían var dótturfélag Keilis en við lokun hennar var flugnámið fært undir Flugskóla Reykjavíkur. Þá fengu nemendur akademíunnar val. Annað hvort héldu þeir áfram námi hjá Flugskóla Reykjavíkur eða hættu, en í hvoru tveggja tilfella fluttust inneignir nemenda hjá akademíunni ekki til Flugskóla Reykjavíkur.

Nemendur áttu því sínar inneignir hjá Flugakademíunni áfram óháð því hvort þeir héldu áfram námi eða ekki. 

Fyrrverandi nemandi Flugakademíu Íslands krefur nú skólann um 7 miljóna króna endurgreiðslu sem hún greiddi í flug­tíma sem ekki voru flognir. 

Ragnar Þórður Jónasson, lögmaður nemandans, ræddi við mbl.is í desember þar sem hann gagnrýndi vinnubrögð akademíunnar harkalega, sagði skólann mismuna nemendum við endurgreiðslur og ganga gróflega gegn þeim til að ná af þeim peningum.

Fjárhæðirnar nemi tugum milljóna

Nú eru átta fyrrverandi nemendur skjólstæðingar Ragnars. Nemendurnir höfðu allir átt kröfur á skólann um endurgreiðslur. Hann segir að aðeins einn þeirra nemenda hafi nú fengið endurgreitt.

Kröfufjárhæðirnar nema samtals tugum milljóna króna, að sögn Ragnars. 

Hann segist einnig vita um fleiri lögmenn sem séu í svipaðri sókn gegn akademíunni. Verktaki sem vann fyrir skólann ræddi einnig við mbl.is í desember sem hafði þá ekki fengið greidd laun fyrir vinnuna sína.

Enn hafa ekki verið gerðar kröfur í þrotabúið þar sem gjaldþrotaskiptin eru á upphafsstigi.

Frétt hefur verið uppfærð. Í upprunalegri frétt var óvart gefið í skyn að inneign nemenda hjá fyrrum Flugakademíu Íslands myndi færast yfir til Flugskóla Reykjavíkur ef nemandi héldi náminu áfram í nýjum skóla. Það var ekki alveg rétt, allir nemendur áttu að fá endurgreitt, sama hvort þeir héldu áfram í Flugskólanum eða ekki, en þeir sem héldu áfram reyndust frekar fá endurgreitt, en ekki hinir.

Flugakademía Íslands
Flugakademía Íslands Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert