Góð veðurspá fyrir morgundaginn: Hlýnar í næstu viku

Úrkomuspá Veðurstofunnar klukkan 12 á morgun.
Úrkomuspá Veðurstofunnar klukkan 12 á morgun. Kort/Veðurstofa Íslands

Það stefnir í að það viðri betur á landsmenn um þessa helgi heldur en tvær síðustu og gangi veðurspáin eftir verður gott veður víðs vegar um landið á morgun.

Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að áfram verði frekar kalt í veðri. Hann segir að morgundagurinn líti nokkuð vel út á landinu.

Léttir víða til á morgun

„Það er útlit fyrir að það létti víða til á morgun en eitthvað verður um él á Suðausturlandi. Það verður frekar kalt og frost um mest allt land en hitinn gæti skriðið aðeins yfir frostmarkið sunnan landsins yfir daginn,“ segir Haraldur við mbl.is. 

Hann segir að á sunnudaginn taki austlæg átt við og að lægð fyrir sunnan land komi inn á landið með einhverja úrkomu í formi sjókomu og slyddu víða um land en að Norðurlandið ætti að sleppa og syðst verður væntanlega nógu hlýtt að úrkoman fari yfir í rigningu.

Kannski fer vorið að sýna sig

„Ólíkt síðustu tveimur helgum stefnir í að besta veðrið verði á Norðurlandi á sunnudaginn og góðar líkur að það sjáist til sólar þar,“ segir Haraldur.

Talsverð gjóla verði á landinu en ekkert hvassviðri.

Spurður hvort hann sjái einhver hlýindi í kortunum segir Haraldur:

„Á mánudaginn fer hann aftur í norðanátt og kulda en spárnar gera ráð fyrir að það fari að hlýna um og eftir miðja næstu viku. Kannski vorið fari þá eitthvað að sýna sig.“

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert